19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3913 í B-deild Alþingistíðinda. (3384)

287. mál, verðtryggður skyldusparnaður

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það er búið að tala töluvert mikið nú þegar í þessu máli. Mig langar til að tjá í örfáum orðum hug minn til þess.

Ég skal játa að það hvarflaði að mér fyrst þegar ég heyrði um þetta mál, að hér væri ekki svo afleitt mál á ferðinni. Væri nema eðlilegt, þegar ungir húsbyggjendur eiga í þrengingum, að tekjur þeirra hæst launuðu í landinu yrðu lánaðar til nokkurs tíma til að bæta úr? Mér er ofarlega í huga að í áratuga verðbólgu hér er enginn vafi að launabil fólks hefur vaxið jafnt og þétt. Hinir ríku, ef við getum talað um ríka menn hér á Íslandi, hafa stöðugt orðið ríkari, hinir fátæku hafa orðið fátækari. Þetta er staðreynd. Það mun rétt vera, að launamunur er þó minni hér á landi en víðast hvar annars staðar, enda er auðstétt á við það, sem gerist í hinum stærri ríkjum, okkur Íslendingum almennt á móti skapi.

En ég verð að segja það, að eftir því sem mér miðaði lengra til skilnings á þessu máli, þá er ég nú orðin algerlega andhverf því. Mér verður að spyrja: Hvers vegna leggur ríkisstjórnin þetta mál fram? Sú skýring, sem mér er efst í huga, er e.t.v. helst til illkvittnisleg. En mér kemur einfaldlega í hug að það sé til þess að hún geti að málinu felldu sagt sem svo: Vondu íhaldsmennirnir og kratarnir í stjórnarandstöðu vilja ekki hjálpa vesalings unga fólkinu sem er að basla við að koma sér upp húsnæði í fyrsta skipti. Skuldinni á að skella á stjórnarandstöðuna og leggja út sem skilningsleysi og jafnvel andstöðu við það unga fólk sem þarna á hlut að máli. Án þess að ég fengi svar við spurningum mínum með því að lesa frv. og ekki heldur með því að hlusta á framsögu hæstv. fjmrh., þá hefði ég getað ímyndað mér að þessi skattur í formi skyldusparnaðar mundi koma á topptekjur fólks í landinu, ekki á lægri tekjur en sem nemur 15 þús. kr. á mánuði, 15–20 þús., upp í 25 þús. kr. á mánuði. Það er fólk hér í landinu sem er svo tekjuhátt. En eftir að ég heyri það upplýst hér, að sjálfur hæstv. fjmrh. upplýsir að þetta komi á tekjur frá 12–15 þús. kr. á mánuði, sem eru rétt meðaltekjur fólks í dag, þá nær þetta náttúrlega ekki nokkurri átt. Ég man ekki betur en ég hafi séð í yfirliti frá Þjóðhagsstofnun að meðalrauntekjur verkamanns á s.l. ári hafi numið 10–11 þús. kr. Af þessu getum við ráðið hvort það er rétt, sem gefið er í skyn nú, að þetta eigi að leggjast aðeins á allra hæstu tekjur. Auðvitað gerir líka það, sem á undan er gengið, furðuleg aðför að tekjum Byggingarsjóðs, þetta mál allt erfiðara viðfangs fyrir ríkisstj. Það er auðvitað með eindæmum að voga sér að rýra svo eða kippa raunar burt tekjustofni þessa mikilvæga fjárfestingarsjóðs sem á að standa undir húsbyggingarkerfinu í landinu. (Gripið fram í.) Það út af fyrir sig gerði alla vega ákaflega erfitt að ljá máls á slíkri skattlagningu eða þeim skyldusparnaði sem gert er ráð fyrir í frv.

Ég vil endurtaka það, að ég bíð eftir, þegar þetta mál hefur verið fellt eins og ég geri ráð fyrir, stórum fyrirsögnum þar sem skuldinni af vanda ungra húsbyggjenda verður að stórum hluta skellt á vonda menn í stjórnarandstöðunni sem vildu ekki láta þá ríkustu í landinu koma til móts við þá sem erfiðara eiga. Sjáum til hvort það verður ekki. Og ég endurtek einnig að ég hefði vel verið til viðtals um að viðhafa þessa aðferð ef réttara hefði verið að henni staðið. Ég sé að það eru ekki bara hátekjumennirnir sem þarna eiga að borga brúsann, heldur er það miðlungsfólk eins og ég og fleiri. Og ég vil taka undir það sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði, að það eru margir hér í landi sem hafa aðstæður til þess að draga undan skatti og skammta sér sjálfum tekjur og til þeirra náum við ekki með þessu frv., því miður.

Ég vona að það greiðist með einhverju móti úr lánum ungra húsbyggjenda. Ég er ákaflega hrædd um að þetta verði loforð sem ekki verður staðið við, þessar 35 millj. fari einfaldlega í að borga skuldahalann, sem fyrir er, og ekkert yrði eftir til þess að hjálpa þeim sem eru að byggja. Þess vegna hef ég gert upp hug minn nú þó að ég væri ekki gallhörð í fyrstu. Ég get ekki stutt þetta frv.