19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3915 í B-deild Alþingistíðinda. (3385)

287. mál, verðtryggður skyldusparnaður

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég hef tækifæri til að fjalla um þetta frv. í nefnd, en vegna orða síðasta ræðumanns held ég að það sé alveg nauðsynlegt að hér komi fram eftirfarandi.:

Hv. síðasti ræðumaður, Sigurlaug Bjarnadóttir, lýsti sig reiðubúna til að styðja það að skyldusparnaður væri lagður á, ef miðað væri við ákveðið tekjumark, og hún greindi frá því, hvað það tekjumark væri. Hins vegar varð þm. það á, þegar hún hafnaði þessu frv. á þeim forsendum að tekjumarkið í frv. væri lægra en það mark sem hún gæti fellt sig við, að vísa til þess tekjumarks í frv. sem miðað er við tekjur ársins í fyrra. Þegar þær eru framreiknaðar til þeirra tekna í dag, þá kemur einmitt í ljós að það tekjumark, sem miðað er við í frv., er í reynd, ef horft er á tekjurnar eins og þær koma til greiðslu á þeim mánuðum sem nú eru að líða, nokkurn veginn við sama mark og hv. þm. lýsti yfir að hún gæti stutt. (SigurlB: Eru svona miklar kauphækkanir hjá okkur?) Það skiptir ekki það miklu máli. Það er hins vegar, eins og þm. Sjálfstfl. er mjög tamt að fjalla um hér í deild, nokkur verðbólga í landinu, og ef miðað er við þær verðbólgutölur, sem hv. þm. Lárus Jónsson er yfirleitt að halda hér fram, er þetta mjög einfalt reikningsdæmi.

Mér fannst nauðsynlegt að leiðrétta þennan misskilning hv. þm. vegna þess að þær forsendur, sem hv. þm. gaf sér, voru einmitt á þá leið, að það tekjumark, sem hún gæti samþykkt að skyldusparnaður kæmi á, og vék þar að í kringum 20 þús. á mánuði á liðandi stundu, er einmitt mjög svipað mark og miðað er við í þessu frv. Vegna þess að ég er formaður þeirrar nefndar, sem fær þetta frv. til afgreiðslu og hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir á einnig sæti í þeirri nefnd, þá verður mér sönn ánægja að sýná henni fram á að það tekjumark, sem er miðað við í þessu frv., er í grófum dráttum sama tekjumark og hún var að enda við að lýsa yfir áðan að hún gæti stutt.