19.04.1982
Efri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3915 í B-deild Alþingistíðinda. (3386)

287. mál, verðtryggður skyldusparnaður

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég verð að játa á mig þá sök, að ég gat ekki verið viðstaddur alla umr. sem hér fór fram áðan, fyrst og fremst vegna þess að fram fóru ærið langdregnar atkvgr. í Nd. og tvísýnar á köflum um mjög mikil stórmál. En ég tók eftir því, að ég var spurður einnar spurningar í þessum umr., og vil svara þeirri spurningu.

Spurningin kom frá hv. 4. þm. Vestf., Þorv. Garðari Kristjánssyni, sem spurðist fyrir um hvort ætti að nota það fé, sem fengist að láni með þessum skyldusparnaði, til að borga upp skuld Byggingarsjóðs við Seðlabankann og hvort ekki væri rétt að skuldin við Seðlabankann næmi um 40 millj. kr. Ég vil svara þessari spurningu ósköp einfaldlega þannig, að það er alveg rétt, að skuldin við Seðlabankann er 40 millj. kr., og hefur verið gert ráð fyrir að hún yrði greidd á þessu ári. Hitt er annað mál, að við teljum að Byggingarsjóður eigi nokkuð upp í þá skuld. Það var ekki ætlunin að nota þetta fé, nema þá að einhverjum litlum hluta, til að standa skil á greiðslu þeirrar skuldar, en hins vegar mundi það fé, sem hér fengist, að verulegu leyti nýtast til að gera kleift að hækka lán til þeirra sem eru að eignast íbúð í fyrsta sinn. Þetta er mitt svar við þessari spurningu.

Varðandi málflutning hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur áðan tók ég eftir því, að hún hafði greinilega misskilið orð mín varðandi tekjumörkin sem þessi skyldusparnaður er miðaður við. (Gripið fram í.) Já, ég mun hafa sagt við fréttamann sjónvarps fyrir nokkrum dögum að gera mætti ráð fyrir að menn yrðu ekki að leggja af mörkum til skyldusparnaðar nema þeir hefðu haft 12–15 þús. kr. í tekjur á seinasta ári að meðaltali á mánuði. Þá byrjuðu menn að greiða. Þetta er þannig hugsað, að mörkin liggja við 135 þús. kr., eins og áður hefur komið fram. Síðan er það lágmark einhvers staðar í kringum 15 þús. sem kemur sem almennur frádráttur, þannig að mörkin liggja greinilega einhvers staðar fyrir ofan 150 þús. kr. á seinasta ári. 150 þús. kr. á seinasta ári eru milli 12 og 13 þús. kr. á mánuði í tekjur. Það er þar sem mörkin liggja fræðilega séð, en í reynd er mjög sjaldgæft að menn lendi með einhverjar af tekjum sínum í skyldusparnaði vegna þess að mjög algengt er að menn séu annaðhvort með einhvern viðbótarfrádrátt, sem veldur því að þeir lenda ekki í þessum mörkum,.ellegar þeir fái afslátt frá maka eða annað þess háttar. En ef við litum á þessa tölu, mánaðartekjur um mitt s.l. ár, 12 500 kr., skulum við segja, hvað skyldi það þá gera á miðju þessu ári? Miðað við 40% verðbólgu á milli ára lætur nærri að það séu um 17 500 kr. á mánuði. Þá spyr ég hv. þm. og ætlast ekki endilega til að hún svari þessu á stundinni: Mundi hún telja það almennar launatekjur í landinu sem byrjuðu við mörkin 17 500 kr. á miðju þessu ári? (LJ: Þetta er nálægt meðaltekjum iðnaðarmanns.) Ég er hræddur um að það heyri frekar til undantekninga í þessu þjóðfélagi, því miður, að menn hafi tekjur sem eru langt yfir þessum mörkum. Mér er t.d. kunnugt um að laun þm. eru mjög nærri þessum mörkum. Líklega eru þau heldur hærri. Ég man ekki nákvæmlega hvað þau eru há, en það er greinilegt að t.d. maður, sem einungis hefur þingmannslaun, lendir annaðhvort ekki með sín laun í þessum skyldusparnaði eða þá að það er mjög óverulegur hluti af tekjum hans.