05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

325. mál, símaþjónusta opinberra stjórnsýslustofnana

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Tilgangurinn með því að ég kem hér í ræðustól í þriðja skipti, er að reyna að fá fram svör hæstv. símamálaráðherra. Mig langar þess vegna til að spyrja hann afskaplega einfaldrar spurningar sem ég veit að hann getur svarað jafnvel úr sínum ráðherrastól, og hún er þessi: Mun hæstv. símamálaráðherra beita sér fyrir því, þrátt fyrir það að nú hafi þegar verið tekin upp skrefatalningaraðferðin, að neytendur — þ. e. símnotendur, þeir sem greiða gjöld til Pósts og síma — fái tækifæri til að segja til um það, hvora leiðina eigi að fara, þá sem ráðh. telur sjálfur vera réttlátasta eða hugsanlega þá sem símnotendur vildu frekar fara? (Sjútvrh.: Ég mun bíða eftir ákvörðun Alþingis í því máli, hún liggur ekki fyrir.) Þá skil ég ráðherra svo að hann bíði eftir ákvörðun Alþingis. Geri hann það, þá vænti ég þess fastlega, að þegar hún liggur fyrir muni þessi könnun fara fram og ráðh. sætta sig við þá niðurstöðu sem þar fæst.