19.04.1982
Neðri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3932 í B-deild Alþingistíðinda. (3413)

168. mál, dýralæknar

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda langa tölu, þó að mér hafi kannske gefist tilefni til þess út af þeim umr. sem hafa farið fram um þetta frv.

Út af ræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar, sem hann flutti hér s.l. föstudag, vil ég aðeins segja það, að mér fannst hann gera heldur mikið úr þeim erfiðleikum sem við hefðum lent í varðandi hæstv. ráðh. sem hér eiga hlut að máli. Ég vil upplýsa að það var fullt samkomulag við þá báða í sambandi við afgreiðslu frv. eins og nefndin gekk frá því. Og ég vil taka undir orð hæstv. landbrh., sem hann lét falla við þessa umr., að ég er sannfærður um að það eru fyrst og fremst starfsmenn ráðuneytanna sem eru með einhverja togstreitu sín á milli, en alls ekki ráðh. Þetta vil ég að komi fram.

Út af ræðu hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur vil ég segja það, að ég varð dálitið hissa. — Er þm. ekki hér inni? Ég hefði viljað að hann væri hér inni. —Ég er dálítið hissa út af þeim orðum sem hún lét hér falla. Ég hygg að hægt sé að lesa upp úr ýmsum lögum svipuð ákvæði og þm. las upp úr þessu frv. Ég gæti meira að segja bent á nýlega sett lög, sem þm. mun hafa fjallað um í nefnd.

Þó að ég ætti ekki að eyða tíma þingsins í að fara að lesa upp úr lagagreinum ætla ég að koma með sýnishorn vegna þess að þm. vitnaði sérstaklega í þessi lög. Ég er auðvitað alveg sannfærður um að það var ekki út af texta þessa frv. sem þm. talaði svona. Það er vegna þess að þm. er á móti frv. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að hv. þm. er búinn að starfa í það mörgum nefndum og fjalla um frumvörp þar sem textinn er álíka og hér er um að ræða, að það getur ekki verið fyrst og fremst ástæðan, heldur tylliástæða fyrir þeirri ræðu sem hér var flutt. En með leyfi forseta ætla ég að lesa nokkrar linur úr 12. gr. læknalaganna:

„Læknunum eru óheimilar hvers konar auglýsingar um starfsemi sína sem lækna fram yfir látlausar auglýsingar í blöðum, sem birta má í hæsta lagi þrisvar, eða á lyfseðlum og dyraspjöldum með nafni, lærdómstitli, stöðu, heimilisfangi, síma, viðtalstímum og sérgrein, ef um sérfræðing er að ræða. Læknum og stéttarfélagsskap þeirra ber að vinna á móti því, að eftir þeim séu birt ummæli eða samtöl, eða um þá ritaðar greinar í blöð eða tímarit í auglýsingaskyni, en ef ekki verður komið í veg fyrir það, þá ber þeim eða stéttarfélagi þeirra jafnskjótt að leiðrétta það, sem þar kann að vera ofmælt.“

Ég gæti hér lesið hliðstæða kafla bæði úr þessum lögum og öðrum. Ég er ekki að segja að það séu málsbætur fyrir það að eitthvað sé hægt að finna að frv. um dýralækna.

Ég vil minna á að það var sett nefnd til að fjalla um þessi lög. Margt af því, sem þm. las upp, er í gildandi lögum. Það var fyrst og fremst ætlast til þess, að ákveðin atriði yrðu tekin til umfjöllunar. Þá var einmitt verið að hugleiða að leysa vanda og árekstra sem hafa komið upp í störfum yfirdýralæknis og héraðsdýralækna. Það er sjálfsagt engin tilviljun að þessi texti er einmitt í þessu frv. og lögunum eins og þau eru. Hins vegar held ég að hér sé ekki hægt að benda á atriði sem menn geti í sjálfu sér verið á móti eða það brjóti í bága við annað.

Ég talaði við hæstv. menntmrh. út af ákvæðunum, sem eru að vísu í lögum áður, um Keldur. Hann er hér staddur og ég bið hann að leiðrétta ef ég fer ekki rétt með. Hann sá ekki ástæðu til að gera neinar aths., en óskaði eftir því, að ég hefði samband við Guðmund Pétursson. Hann var erlendis, en ég talaði við formann nefndarinnar, frú Ragnheiði Árnadóttur, og hún sagði að yfirdýralæknir og Guðmundur hefðu rætt um frv. í heild sinni. Ég geri ráð fyrir að þeir hafi þá gengið frá þessu máli þannig að það verði ekki nein leiðindi í sambandi við þetta mál.

Hitt er svo ekkert nýtt, þó að við, sem erum búnir að vera hér á þingi, verðum þess áskynja að það sé togstreita um ýmis mál á milli ráðuneyta. Það er í þessu máli, en svo er ekki á milli ráðh. Það vil ég endurtaka. Eins og frv. liggur hér fyrir var fullt samkomulag að milli nefndarinnar annars vegar og ráðherranna.

Í sambandi við þá brtt., sem hv. þm. Vilmundur Gylfason og Albert Guðmundsson hafa hér lagt fram, skal ég vera fáorður. Ég held að eðlilegra hefði verið ef þarna hefði verið ákvæði til bráðabirgða um að lögin skyldu verða endurskoðuð og því skuli lokið fyrir einhvern tilskilinn tíma heldur en það standi að lögin falli úr gildi. Ég man ekki til þess, að slíkt ákvæði hafi verið leitt í lög. Það kann að vera að svo sé, en ég man ekki til þess. Mér fyndist hitt miklu skynsamlegri og eðlilegri og venjulegri leið, ef menn vilja tryggja að þessi lög verði endurskoðuð fyrir einhvern ákveðinn tíma, og síst hef ég á móti því. En í þessu sambandi vil ég að menn athugi það — ég ætla aðeins að taka eitt dæmi því að ég vil ekki vera að eyða dýrmætum tíma um of — að það eru dýralæknarnir í öllum tilvikum sem verða að stimpla allt sem fer út úr landinu. Erlendir aðilar taka ekki mark á öðrum. Menn verða að leiða hugann að því, ef á hér að fara að breyta til, svo að ég komi með eitt veigamikið atriði í þessu öllu saman.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, að það, sem skiptir höfuðmáli, er að hluti af þessu frv. öðlist lagagildi. Nefndin hefur lagt verulega vinnu í að koma því í þann búning sem við töldum að allir gætu sætt sig við. Það er náttúrlega mál hvers og eins, hvort hann er á móti frv., en mér finnst það vera í hæpnasta lagi að lesa upp úr þessu frv. sem það sé eitthvað sérstakt, sé eitthvað langt neðan við það sem Alþingi hefur áður látið frá sér fara, vegna þess að slíkar fullyrðingar eru algerlega út í hött.

Ég vil svo að endingu segja það, að ég vona að það verði unnið þannig að þessu máli að það fái fullnaðarafgreiðslu áður en þingi lýkur. Ef menn eru á móti frv. eða einstökum greinum þess efnislega finnst mér að það sé allt í lagi þó það komi fram, en ég kann ekki við að menn skýli sér á bak við málflutning eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir beitti á föstudag.