19.04.1982
Neðri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3934 í B-deild Alþingistíðinda. (3414)

168. mál, dýralæknar

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég gat ekki verið við umr. um þetta mál á föstudaginn, og ég veit að formaður nefndarinnar gat um það mál sem ég vildi koma á framfæri. Það stendur í þessu frv., að það skuli stofna sérstakt umdæmi á Austurlandi, Norðfjarðarumdæmi, sem er Norðfjarðarhreppur, Neskaupstaður, Helgustaðahreppur, Eskifjarðarkaupstaður, Reyðarfjarðarhreppur. Nefndinni og þm. Austurlandskjördæmis barst erindi frá öllum búfjáreigendum við Reyðarfjörð, 33 að tölu, sem óska eftir að þeir geti leitað til dýralæknis á Egilsstöðum, sérstaklega þegar um ófærð er að ræða, og rekja það í sínu bréfi. Nú kemur fram í brtt. nefndarinnar að gert er ráð fyrir að t.d. íbúar Bæjarhrepps geti vitjað héraðsdýralæknis í Vestur-Húnaþingsumdæmi ef þeir óska þess. Ég vildi mega óska eftir því, að nefndin tæki erindi Austfirðinganna til athugunar milli 2. og 3. umr. og tryggði að þessir aðilar gætu haft viðunandi þjónustu áfram, því að að sjálfsögðu verður að taka tillit til þeirra samgangna, sem eru í hverjum fjórðungi, þegar verið er að raða umdæmunum upp, og eðlilegt að það sé tryggt, ef um ófærð sé að ræða, að þá geti menn fengið þjónustu úr annarri átt.