19.04.1982
Neðri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3935 í B-deild Alþingistíðinda. (3417)

168. mál, dýralæknar

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. 7. landsk. þm. hefur lagt fram fsp. til mín við þessa umr. um hvort héraðsdýralæknisumdæmi í Þingeyjarþingi verði veitt ef þessi lög verða afgreidd á þessu Alþingi. Ég mun ekki gefa neinar ákveðnar yfirlýsingar um það nú, hvaða umdæmi verða veitt í kjölfar á samþykkt þessara laga, ef afgreidd verða, en hér segir svo í 4. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Skipting héraðslæknisumdæma samkv. þessari grein kemur til framkvæmda eftir því sem landbrh. ákvarðar og fjárveiting segir til um. Fram að þeim tíma gildir skiptinga í umdæmi eins og lög um dýralækna nr. 77/1981 gera ráð fyrir.“

Ég geri ráð fyrir að verði þetta frv. afgreitt muni ég taka þegar til athugunar að leita upplýsinga um hvar sé talið brýnast að veita nýtt dýralæknisumdæmi, og gæti komið til greina að á þessu ári væri veitt eitt eða tvö slík umdæmi. En miðað við þær lauslegu fregnir, sem ég hef frá þeim umdæmum sem hér er um að ræða, get ég vel trúað því, að Þingeyjarumdæmi verði þar í fremstu röð.

Þá man ég að hv. þm. lagði fram fsp. til mín varðandi þetta efni s.l. föstudag, þar sem hann spurði hvort ég mundi hlutast til um, et veitt verður nýtt dýralæknisumdæmi í Þingeyjarsýslu, að báðir dýralæknarnir muni þá hafa aðsetur á Húsavík. Um þetta efni segir í frv. og í brtt. frá hv. landbn.:

„Heimilt er ráðh. að ákveða, að tveir eða fleiri héraðsdýralæknar hafi aðsetur á sama stað, ef það er hentugra að dómi yfirdýralæknis, stjórnar Dýralæknafélags Íslands og viðkomandi búnaðarsambanda.“

Varðandi tvo héraðsdýralækna í Þingeyjarsýslum mundi að sjálfsögðu farið að ákvæðum laganna og leitað umsagnar þeirra aðila, sem hér hafa verið tilgreindir, og ákvörðun tekin eftir að þær umsagnir hafa borist. En að sjálfsögðu hef ég ekkert við það að athuga, ef þær umsagnir verða með þeim hætti, að báðir dýralæknar geti setið á Húsavík, ef talið er að það geti orðið til þess að auðvelda störf þeirra og koma við meiri verkaskiptingu og hagræðingu í starfi.

Ég held að hv. þm. verði að láta sér þessi svör nægja við fsp. sínum og skilja að ég vil ekki á þessu stigi gefa um það afdráttarlausari yfirlýsingar en hér hafa komið fram.

Um þær umr., sem hér hafa farið fram skal ég ekki fjalla í mörgum fleiri orðum. Ég vil að eins staðfesta það, að í frv, þessu er í mjög mörgum greinum óbreyttur texti frá því sem er í gildandi lögum. Ég tel mig ekki þess umkominn að gera hér gys að fyrrv. hv. alþm. fyrir það, sem þeir hafa afgreitt á þeirri tíð þegar gildandi dýralæknalög voru afgreidd, eða þeim mönnum., sem staðið hafa að samningu þeirra. Vafalaust getur stundum orkað tvímælis hvað eigi að standa í lagatexta og hvað eigi þar ekki heima, en í ýmsum tilvikum hefur það ráð verið tekið af þeirri nefnd, sem undirbjó þetta frv., að láta gildandi lagatexta halda sér, ef ekki hefur verið talin nauðsyn að gera breytingar vegna nýrra viðhorfa, vegna samræmis við aðra lagabálka, sem samþykktir hafa verið, og vegna þess að þurft hafi að koma við nýmælum. Þetta hygg ég að eigi að skýra það sem hér hefur verið vakin athygli á, og komu raunar slíkar skýringar fram í máli hv. formanns og frsm. meiri hl. hv. landbn.

Um brtt. þá, sem lögð hefur verð fram á þskj. 635 frá Vilmundi Gylfasyni og Albert Guðmundssyni, segi ég að vel má vera að slík aðferð, sem hér er kynnt, sé viðhöfð sums staðar á öðrum þjóðþingum. Þessi aðferð er þó nokkurt nýmæli hér. Mér sýnist að ef ætti að fallast á að samþykkja eitthvað í þessa átt. þá þyrfti að hafa hér lengri frest. Það er ekki óyggjandi að búið yrði að afgreiða ný lög fyrir þennan tíma, og þá væri löggjöfin úr gildi fallin og það væri mjög óaðgengilegt.

Ég vil einnig segja það, eins og hér hefur komið fram, að það er fullt samkomulag um þær brtt„ sem fram hafa verið settar, og bæði ég og hæstv. heilbrmrh. höfum staðið að því samkomulagi. Hitt er auðvitað ljóst, að ýmsir starfshópar í þjóðfélaginu hafa misjafnar skoðanir á því, hvað á heima í hverjum lagabálki fyrir sig. Þannig er vitað mál t.a.m., að lyfjafræðingar hafa verið því andvígir, að dýralæknar hafi heimild til sölu á dýralyfjum, og hafa viljað, að öll sala á dýralyfjum færi fram í lyfjabúðum. Það hefur hins vegar verið viðurkennt í löggjöf að dýralyf gætu verið seld af dýralæknum. Það er gert til þess að ekki sé um óþarfavafstur að ræða fyrir þá sem þurfa á þjónustu að halda og þurfa að kaupa lyfin, því að færi salan einvörðungu fram í lyfjabúðum þyrfti hverju sinni að leita eftir lyfseðli frá dýralækni, en síðan að fara til lyfjabúðar og sækja lyfin þangað. Þannig er í ýmsum greinum um álitamál að ræða sem ekki eru allir aðilar í þjóðfélaginu sammála um hvernig með skuli farið, en ég hygg að með þeim breytingum, sem gerðar hafa verið í hv. landbn., hafi verið náð að samræma þess sjónarmið þannig að allir aðilar geti sæmilega við unað. Vænti ég að frv. fáist afgreitt með þeim hætti.