19.04.1982
Neðri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3937 í B-deild Alþingistíðinda. (3418)

168. mál, dýralæknar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að lýsa þeirri skoðun minni hér, að mér kemur á óvart að það skuli valda gagnrýni og jafnvel sárindum ef þm. leyfi sér að gera aths. við frv. þó að það sé komið úr nefnd með samþykki allra nm. Ég held að þau vinnubrögð séu of algeng hér í þinginu, að menn treysti fullkomlega fulltrúum sínum í nefndum og lesi jafnvel ekki alltaf þau frv. sem liggja á borðum þm. Það er a.m.k. næsta óvenjulegt að það veki kátínu í þingsal þegar lesinn er texti þess frv. sem fyrir liggur. Ég held að alveg ástæðulaust sé af hálfu hv. formanns landbn. að fyrtast við þó að þm. geri aths. við frv. og nál.

Í sambandi við þetta vil ég einnig lýsa því, að mér þykir það hvimleiður siður hér í Alþingi og af hálfu hæstv. ráðh., að hvers kyns pressuaðilar geti fengið viðkomandi ráðh. til að láta gera frv. Við höfum — og ég hef áður gagnrýnt það — fengið frv. beint frá biskupsskrifstofu til að samþykkja hér. Hér liggur fyrir endurskoðað lagafrv. um dýralækna, og hverjir hafa samið það? Yfirdýralæknir, einn héraðsdýralæknir, sem hefur verið lengi í starfi, og deildarstjóri í landbrn. Kynni nú ekki að hafa verið ástæða til að taka inn í þessa nefnd svo sem eins og tvo dýralækna af yngri kynslóðinni sem kynnu að hafa einhver önnur vinnubrögð í huga? (HBI: Og konur?) Að ég nú ekki tali um, ef þær fyndust í stéttinni, herra þm. Þetta eru óeðlileg vinnubrögð. Hvaða embættismaður í landinu sem er á ekki að geta komið með beina beiðni um að fá að búa til nýtt frv., stundum beinlínis til að fá lagastaðfestingu á hvers kyns heimilisböli sem hann getur sjálfur ekki leyst. Þetta eru ekki vinnubrögð sem mér líka, og það er ekkert athugavert við að ég geri aths. við það.

Það er ekkert athugavert við það, að þm., sem hefur ekki átt þess kost að lýsa sjónarmiði sínu í nefnd, óski eftir að mál verði sent aftur til nefndar til skoðunar á þeim atriðum sem umræddur þm. hafði eitthvað við að athuga. Annað er óeðlilegur þrýstingur á þá þm. sem ekki eiga sæti í viðkomandi nefndum, nema það sé meiningin að þeir þm. eigi ekkert að hafa um önnur mál að segja en þau sem þeir fjalla um í nefndum. Ég mun eftir sem áður lýsa því yfir, úr því að þessi býsn liggur á að koma þessu frv. í gegn og allir virðast ætla að samþykkja það með hangandi hendi og sjaldan hefur það verið berara en í þessari umr., að ég mun samt sem áður ekki greiða þessu frv. atkv. Mér þykir engin ástæða til að afgreiða það í þessu formi.

Ég á satt að segja dálítið erfitt með að skilja hvers vegna ekki var látið duga að bera fram frv. um breytingu á dýralæknisumdæmunum. Það er það eina sem skiptir máli. Það segir kannske dálítið um hvað við erum að gera hér í þinginu, að á bls. 8 í aths. við lagafrv. þetta segir, með leyfi forseta:

„Þó að lög um dýralækna séu ekki nema 11 ára gömul, hafa verið gerðar á þeim breytingar hvað eftir annað eða alls sjö sinnum.“

Það hlýtur að vera nokkuð ljóst að þetta eru engin vinnubrögð. Ef við erum að semja hér lagabálka, sem endast að jafnaði 11/2 ár, held ég að við ættum að taka upp vandaðri vinnubrögð. Ef átti að endurskoða frv. til l. um dýralækna þurfti að gera það miklu betur. Það hefði verið skynsamlegra að bera fram áttundu breytinguna á núgildandi lögum frekar en koma hér með bálkinn í heild jafnvondan eða næstum því eins og hann var áður.

Ég vil taka það skýrt fram, að ég tel að hv. nefnd og formaður hennar hafi gert sitt besta til að bjarga þessu frv., en brtt., sem hér liggja fyrir, segja dálítið um hversu ánægð nefndin var með frv. eins og það leit út. Og það vill svo til að hér er enn einn hv. þm. sem ekki er enn þá ánægður með þetta frv. og hefur fullt leyfi til þess.