19.04.1982
Neðri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3938 í B-deild Alþingistíðinda. (3419)

168. mál, dýralæknar

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir taldi að það hefði verið eitthvað einkennilega staðið að samningu þessa frv. Hv. þm. taldi að ástæða hefði verið til þess, að einhver af yngri dýralæknum hefði komið að samningu málsins. Og hún lét sér þau orð um munn fara, að hvaða embættismaður sem er ætti ekki að geta sett fram beiðni um að búa til frv. Ég vil láta það koma fram, að getsakir í þessa átt eru úr lausu lofti gripnar. Það hefur enginn embættismaður óskað eftir því að fá að búa til þetta frv.

Ég vil láta þess getið, að í nefnd, sem fjallaði um samningu þessa frv. var skipaður yfirdýralæknir án þess að hann hefði nokkra ósk sett fram um það. Ég vil einnig láta þess getið, að í nefndina var skipaður fulltrúi Dýralæknafélags Íslands. Ég hygg að Dýralæknafélag Íslands hafi tekið ákvörðun um það á aðalfundi sínum, hver sá fulltrúi yrði, en það var formaður félagsins, Jón Guðbrandsson dýralæknir. Formaður nefndarinnar var skipaður Ragnheiður Árnadóttir, sem er sá deildarstjóri í landbrn. sem fjallar um þessi mál af hálfu rn. Enginn af þessum embættismönnum hafði óskað eftir að fá að búa til frv. Þetta vil ég hafa alveg á hreinu.

Ég þarf ekki að fara orðum um annað sem fram kom í máli hv. þm. Þm. taldi að það væri einkennilegt að ekki skyldi aðeins lagt hér fram frv. um breytingu á dýratæknaumdæmum. Ef það hefði veríð gert hefði löggjöfin að sjálfsögðu haldið sér að öðru leyti, þ.á. m. sá lagatexti sem hv. þm. hefur verið að gagnrýna úr þessum ræðustól, þannig að ég sé ekki ástæðu til að svara þeim vangaveltum mikið.