19.04.1982
Neðri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3938 í B-deild Alþingistíðinda. (3420)

168. mál, dýralæknar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er sjálfsagt öllum ljóst að æskilegast er að þjónusta í sambandi við dýralækningar, eins og reyndar önnur heilbrigðisþjónusta í landinu, sé með sem skaplegustum hætti og hægt að framkvæma hana á sem bestan hátt. Um það greinir menn væntanlega ekki á. Það hefur raunar komið fram áður, það hefur verið vakin athygli á því af nokkrum hv. þm., að mönnum finnst óeðlilegt að binda í löggjöf ýmsa þá þætti sem hér er gert ráð fyrir að setja inn í væntanleg lög. Ég sé ekki betur en nokkuð af þessum þáttum, sem hér er gert ráð fyrir að lögbinda, séu hrein kjaraákvæði og eigi að afgreiða í kjarasamningum viðkomandi stéttar og hins samningsaðilans. Mér finnst t.d. óeðlilegt og varla ná nokkurri átt það sem gert er ráð fyrir í 17. gr., með leyfi forseta:

„Heimilt er að greiða héraðsdýralæknum símastyrk samkv. ákvörðun landbrn. og að auki leigu vegna embættisaðstöðu til þeirra, sem eiga njóta embættisbústaðar.

Mér finnst gersamlega ótækt að vera að binda slíkt í löggjöf frekar fyrir þessa stétt manna en þá almennt fyrir launafólk. Hvers á almennt launafólk að gjalda í þessum efnum? Sama má raunar segja, eins og hér hefur áður verið vikið að í sambandi við 18. gr., um lán og lánsútvegun. Mér finnst þó kasta tólfunum í 19. gr. frv. og ætla að lesa hana yfir, með leyfi forseta:

„Þegar dýralæknir er kvaddur til vitjana á eigin farkosti á fleiri en einn stað í sömu akstursleið ber honum að aka sem beinasta og greiðasta leið til þeirra sem vitjana hafa óskað.“

Hverjum dettur í hug að lögbinda atriði eins og hér er talað um að leiða í lög? Á beinlínis að lögbinda hvaða leið dýralæknir á að fara ef óskað er eftir vitjun? Ég held að Alþingi verði að fara að gæta að sér í efnum sem þessum. Þetta er slík firra að ekki tekur nokkru tali að leggja til að slíkt verði bundið í lög. Mér þykja þeir aðilar, sem að svona löggjafarákvæðum standa, bera lítið traust til viðkomandi embættismanna ef þeir gera ráð fyrir að þeir fari að fara alls konar útúrdúra ef þeir eru kvaddir til vitjana. Auðvitað er fjarstæða að gera ráð fyrir slíku í löggjöf. Það er sagt að við Alþfl.-menn séum engir sérstakir vinir þeirra stétta sem hér eiga hlut að máli. En ég a.m.k. treysti dýralækni alveg til að velja greiðustu og eðlilegustu akstursleið til þess aðila, sem biður um vitjun, án þess að binda það í löggjöf. Kannske eru það fulltrúar Framsfl. hér á Alþingi sem bera slíkt vantraust til þessarar stéttar í landinu — eða hverjir eru það?

Sama mætti raunar segja um fleira. Og það er ekki bara varðandi þá löggjöf, sem hér er lagt til að samþykkja, að slíkir meinbugir eru á að engu tali tekur. Það úir og grúir af alls konar ákvæðum í lögum sem alls ekki eiga þar heima og er miklu betra og eðlilegra að fara með á annan hátt en binda í löggjöf.

Nú er ég ekki svo kunnugur, sjálfsagt eru einhverjir hv. þm. það, en ætli það sé hliðstætt ákvæði í héraðslæknalöggjöfinni varðandi mannfólkið? Ætli það sé bundið í löggjöf hvaða leið héraðslæknir eigi að aka ef óskað er eftir vitjun? (Gripið fram í.) Ég heyrði að hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði að þetta væri ekki öðruvísi en væri í öðrum lögum í landinu. Nú sé ég að hv. þm. fer að fletta upp lagasafni og ætlar sjálfsagt að athuga um löggjöfina varðandi héraðslæknana, hvort það er lögbundin akstursleið þar.

Nei, ákvæði eins og hér hefur verið vikið að og raunar miklu fleiri, og sjálfsagt hafa aðrir þm. bent á önnur varðandi þetta mál, er hrein fásinna að binda í löggjöf. Ég tek líka undir það að nokkru leyti með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, að mér finnst allt of mikill keimur af því varðandi frumvörp, sem við fáum til meðferðar á Alþingi, að þar sé um að ræða fyllstu óskir embættismannanna í kerfinu. Það á ekki sérstaklega við um þetta mál. Það á við um miklu fleiri. Ég tel að Alþingi megi beinlínis fara að gá að sér að halda ekki áfram á þeirri braut að vera að lögbinda fjarstæður eins og hér hefur verið bent á.