19.04.1982
Neðri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3943 í B-deild Alþingistíðinda. (3437)

188. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða staðfestingu á brbl. vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu þann 14. jan. 1982. Meiri hl. n. mælir með því, að frv. verði samþykkt, minni hl. skilar séráliti, en hv, þm. Sighvatur Björgvinsson undirritaði nál. með svofelldum fyrirvara:

„Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins hefur verið leikinn mjög grátt. Fé hans hefur óspart verið eytt og stofnað til skulda af hans hálfu. Staða sjóðsins er því vægast sagt mjög slæm. Verði ekki snúið af þessari braut má búast við að þetta gagnmerka stjórntæki verði eyðilagt.

Í ljósi þessa er augljóst að leitast verður við að styrkja stöðu sjóðsins.

Það framlag í sjóðinn, sem hér er gert ráð fyrir, getur átt þátt í því að koma í veg fyrir enn frekari veikingu sjóðsins. Fyrir því leggur undirritaður til að frv. verði samþykki.“

Ég tel ekki ástæðu til., herra forseti, að hafa fleiri orð um þetta mál, en endurtek það sem ég sagði áður, að meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt, en hv. þm. Sighvatur Björgvinsson undirritar nál. með fyrirvara sem ég hef þegar gert grein fyrir.