19.04.1982
Neðri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3946 í B-deild Alþingistíðinda. (3442)

211. mál, verðlag og samkeppnishömlur

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. þá skrifum við fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni undir nál. með fyrirvara. Jafnframt kemur fram í nál. að einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja öðrum brtt., m.a. brtt. á þskj. 375. Hér er átt við okkur þessa þrjá nm. Sjálfstfl. Við gátum þess í nefndinni, að við værum samþykkir þeirri brtt. sem flutt var við 1. umr. þessa máls hér í hv. deild og prentuð er á þskj. 375. Fyrsti flm. þeirrar till. er 10. þm. Reykv., en við allir þrír fulltrúar Sjálfstfl. í nefndinni erum meðflm. ásamt Geir Hallgrímssyni.

Þessi brtt. er við 4. gr. frv. þar sem orðalag 8. gr. laga frá 1978 er fært í sama horf og var á þeim árum sem Sjálfstfl. og Framsfl. fóru með stjórn landsins og þetta frv. varð að lögum.

Síðari brtt. á sama þskj. felur í sér að ný grein, 5. gr., komi á eftir 4. gr. og orðist svo: „12. gr. laganna, sbr. 60. gr. laga nr. 13/1979, hljóði svo:

Verðákvarðanir samkv. 8. gr. skulu miðaðar við afkomu fyrirtækja sem rekin eru á tæknilega og fjárhagslega hagkvæman hátt og nýta eðlilega afkastagetu.

Verð og álagningu má ekki ákvarða lægri en svo, að fyrirtæki þeirrar tegundar, er í 1. mgr. getur, fái greiddan nauðsynlegan kostnað við innkaup eða endurinnkaup vöru, framleiðslu, aðflutning, sölu, flutning ásamt afskriftum, svo og sanngjarnan hreinan hagnað. þegar tekið er tillit til áhættunnar við framleiðslu vörunnar og sölu.“

Við vorum sammála í nefndinni um að það frv., sem hér liggur fyrir sé tvímælalaust til bóta og í frjálsræðisátt, en við teljum að ekki sé gengið nógu langt í þessum efnum. Við vorum ekki á því að fella niður greinina um samkeppnisnefndina, enda höfum við tveir nm. flutt brtt. sem hv. 3. þm. Vestf. var að lýsa áðan.

Á fundi nefndarinnar út af þessu máli komu fulltrúar frá Verslunarráði Íslands sem skýrðu sjónarmið Verslunarráðsins. Einnig komu fulltrúar Sambands ísl. samvinnufélaga. Í bréfi, sem þeir sendu til áréttingar sínu áliti, segir: „Sambandið álítur, að frv. hnígi í frjálsræðisátt, og er samþykkt meginefni þess.'` Hins vegar telur Sambandið niðurfellingu samkeppnisnefndar óheppilega, enda hefur nefndin þegar staðfest gildi sitt með umfjöllun og úrlausn nokkurra mála sem til hennar hefur verið vísað. Undir þetta sjónarmið taka fleiri, sem ég ætla ekki að orðlengja frekar um. En bréf þriggja annarra aðila eru prentuð hér með nál. Það er álit Félags ísl. stórkaupmanna, Verðlagsstofnunar og Kaupmannasamtaka Íslands. Hins vegar er ekki hér bréf Verslunarráðsins sem var langt og ítarlegt. Þetta mál var þar rætt mjög ítarlega og fallist á að frv. hnígi í rétta átt, en talið allt of skammt gengið.

Í meginatriðum erum við fulltrúar Sjálfstfl. þeirrar skoðunar, að hér sé of skammt gengið. Við bjuggumst við meiru þegar hæstv. ríkisstj. gaf þá yfirlýsingu, að hún stefndi að því að ganga hér lengra í frjálsræðisátt, og við teljum að þetta frv. sé heldur smávaxinn ávöxtur af þeirri yfirlýstu stefnu, enda væri það í samræmi við lögin eins og þau voru sett hér á árinu 1978.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessi atriði. Eins og ég sagði áðan munum við sjálfstæðismenn standa að og greiða atkv. með þeim brtt. sem við fimm þm. flokksins flytjum á þskj. 375, en þeim brtt., sem formaður nefndarinnar lýsti hér, erum við sammála því að við teljum þær heldur til bóta en hitt.