19.04.1982
Neðri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3947 í B-deild Alþingistíðinda. (3444)

211. mál, verðlag og samkeppnishömlur

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Í tilefni af því, að þetta frv. til l. um breytingu á lögum nr. 56 frá 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, er nú hér á dagskrá enn einu sinni, vil ég láta mitt sjónarmið koma fram enn þá einu sinni.

Ég er andvígur áframhaldandi verðmyndunareftirliti, þó að ráð sé gert fyrir auknu frelsi að hluta þegar nefnd skipuð hagsmunaaðilum vinnumarkaðarins, þ.e. vinnuveitendasamtökunum og Alþýðusambandinu, er samþykk. Það er náttúrlega með samþykki ríkisstj. þá um leið. Ég tel tímabært að gefa verðmyndunina frjálsa. Þó að hér sé um smáskref í frjálsræðisátt að ræða er sú hugsun, sem kemur fram í þessu frv. og öðrum þeim, sem á undan því hafa gengið, hrein tímaskekkja í nútímaþjóðfélagi og útkjálkahugsunarháttur sem hvergi nokkurs staðar í vestrænum heimi er framkvæmanleg nema hér og það við slæman árangur. Það er að mínu mati næg samkeppni, til þess að verðmyndun sé gefin frjáls, og tímabært að Alþingi fari að átta sig á þeirri staðreynd.