05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

325. mál, símaþjónusta opinberra stjórnsýslustofnana

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég fæ ekki orða bundist vegna síðustu ræðu hv. 1. þm. Vesturl. Hann kemur hér upp og leyfir sér að halda því fram, að þingmenn Reykv., þ. á m. 10. þm. Reykv. sem hér hefur talað, séu að leggjast gegn jöfnun símkostnaðar í landinu. Það eru rakalaus ósannindi sem hv. þm. fer hér með. Við höfum hins vegar margir þm. Reykv. fundið að því, með hvaða aðferð þetta er gert. Við höfum bent á að það eru fleiri en ein aðferð til að ná þessu sama markmiði, en sú aðferð, sem valin er, er ósanngjarnasta aðferðin sem hægt er að finna. Þessi aðferð er ósanngjörn vegna þess að hún kemur niður á fólki sem síst skyldi. Hún kemur niður á einmana fólki sem þarf mikið á síma að halda, ekki aðeins að kvöld- og næturlagi, eins og því er nú ætlað að nota símann, heldur einnig að degi til. Það er það sem við þm. Reykv. erum að finna að. Ég er alveg viss um það, að hv. 1. þm. Vesturl. mun finna fyrir því í sínu kjördæmi einnig, þar sem þessu verður beitt, að þetta verður ekki vinsæl ráðstöfun þar heldur. Ég vil sérstaklega mótmæla því sem hann heldur hér fram, að við séum andvígir jöfnun símkostnaðar í landinu. Við höfum aldrei sagt það. Við andmælum aðferðinni sem er ósanngjörn og óréttlát.