19.04.1982
Neðri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3948 í B-deild Alþingistíðinda. (3451)

168. mál, dýralæknar

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þrátt fyrir úrslit í atkvgr. við 2. umr. um brtt. frá okkur Albert Guðmundssyni geri ég mér vonir um að hin mýkri aðferð, sem hv. 3. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, leggur nú til, finni fremur náð fyrir augum þm. og með þeim hætti verði endurskoðunarþáttur samþykktur að því er þetta frv. varðar.

Á þskj. 644 leyfum við okkur, hv. þm. Albert Guðmundsson og Karvel Pálmason ásamt þeim sem hér stendur, að freista þess enn að flytja brtt. við eina grein þessara laga, sem gengur út á það, að tveir fyrstu málsliðir í 18. gr. laganna falli niður. En þessir málsliðir fjalla um að veitt skuli hagkvæm lán, eins og þar stendur, og í því skyni skuli vera sérstakur sjóður og sá sjóður skuli vera í landbrn. Ég vil enn vekja athygli á því, að það er engin frekari vísbending um það í frv. hvað þessi orð þýða: „hagkvæm lán.“ Og hvernig sem á er litið tel ég að það sé algerlega ástæðulaust að Rafa slíkt í lögum, það sé vont fordæmi, og hér sé um að ræða kjarasamningaatriði ef menn svo kjósa. Því er sú tillaga flutt, að þessir tveir fyrstu málsliðir 18. gr. laganna falli niður.