19.04.1982
Neðri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3949 í B-deild Alþingistíðinda. (3454)

216. mál, ábúðarlög

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Eins og fram kom við 2. umr. klofnaði nefndin í sambandi við þetta mál og einn nm., hv. þm. Skúli Alexandersson, skilaði séráliti. Eftir að nefndin var búin að ganga frá brtt. komu upplýsingar um hvernig á því stóð, að þetta frv. og raunar frv. um breytingu á jarðalögunum var flutt. Það er athyglisvert, að það kemur ekki fram í grg. hverjir sömdu þessi frumvörp og hvernig á tilkomu þeirra stendur. Að vísu mun hæstv. landbrh. hafa skýrt frá því þegar hann flutti frv., en því miður mun ég ekki hafa verið hér í salnum. Það er auðvitað engin afsökun fyrir mig, en sem sagt, ég hafði ekki hugmynd um það og enginn af nm., hvernig þessi mál eru til komin.

Þessi frv. byggjast á samkomulagi og þar er verið að leysa viss vandamál í sambandi við orlofsbyggðir launþegasamtakanna. Í nefndinni, sem fjallaði um þetta, áttu sæti Sveinbjörn Dagfinnsson ráðuneytisstjóri, sem var formaður nefndarinnar, Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri, Árni Jónasson erindreki Stéttarsambands bænda, Jóhannes Siggeirsson, sem mun vera hagfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands, og Arnmundur Backman aðstoðarmaður ráðh.

Eftir að búið var að skýra okkur frá því, hvernig þessu máli er háttað og að þetta er samkomulag um að leysa ákveðin vandamál, hefur nefndin á fundum sínum rætt þessi mál, en því miður gat hún ekki orðið sammála. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. eins og það var lagt fram. Minni hl. gerir grein fyrir afstöðu sinni í málinu.