19.04.1982
Neðri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3954 í B-deild Alþingistíðinda. (3462)

216. mál, ábúðarlög

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að hefja hér umr. um þessi mái, en ég hlýt, vegna stórra orða og misskilnings sem hefur komið fram hér hjá tveimur síðustu hv. ræðumönnum, að segja það, að það eru fleiri, sem standa að þessu samkomulagi, en Alþýðusambandið. Eins og kom fram í mínu máli voru í þessari nefnd búnaðarmálastjóri fyrir Búnaðarfélag Íslands og erindreki Stéttarsambands bænda, Árni Jónasson. Það leit út fyrir það lengst af, að nefndin næði alls ekki saman. Það þarf að taka tillit til fleiri aðila en aðeins Alþýðusambandsins í þessu efni. Það þarf líka að taka tillit til hinna aðilanna. Í ljós hefur komið, að ef þessar breytingar yrðu samþykktar mundu a.m.k. sumar sveitarstjórnir og sumar jarðanefndir bregðast althart við í þessu máli. Ég held að það verði aldrei leyst úr þessum málum með öðru móti en með samkomulagi. Ég leitaði eftir því í landbn. að setja inn í lögin bráðabirgðaákvæði um að endurskoða þessi mál með það fyrir augum að reyna að leysa vandamál þéttbýlisins. En mér er ljóst að ef á að þvinga þetta fram svona, þá hafa hreppsnefndirnar í hendi sinni að stöðva þessi mál. Er það æskilegt? Eigum við ekki að reyna að finna lausn á þessu máli? Er það ekki það sem menn eru að leita að? Það verður aldrei gert með því að þvinga þetta neinn veginn fram. Ég held að menn verði að athuga það.

Ég vil út af hinum stóru orðum hv. 1. þm. Vestf. áðan benda á að hann verður að athuga það, að það eru líka aðrir, sem þarf að taka tillit til í þessu máli, heldur en eingöngu þéttbýlisbúar, og ef ekki er tekið tillit til beggja aðilanna í þessu máli næst aldrei samkomulag. Ég held að landbn. öll sé þess sinnis, að það þurfi að finnast lausn á þessu máli, og við ræddum það mjög í nefndinni. En þeir, sem tala nú um að allir séu jafnir í þessu efni, það eigi ekki að taka tillit til samkomulags sem gert hafi verið úti í bæ, eru auðvitað ekki bundnir af því, það er alveg rétt. En við, sem stöndum að hæstv. ríkisstj., hljótum að reyna að standa við það sem launþegasamtökunum hefur verið heitið í þessu efni. Ef hv. þm. komast að þeirri niðurstöðu að það sé þá eins gott að þessi mál komist ekki fram, þá er það þeirra niðurstaða og á þeirra ábyrgð. Hins vegar mun ég vera tilbúinn að leggja mig fram til þess að finna laus á þessu máli, því að auðvitað þurfa þéttbýlisbúarnir að fá not af landinu með einhverjum hætti. En það fæst aldrei með lagaþvingun.