05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

39. mál, sjálfvirkur sími

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Með lögum, sem samþykkt voru á síðasta þingi, nr. 32/1981, var ákveðið að koma sjálfvirkum síma á næstu fimm árum til allra notenda í landinu sem ekki hafa hann nú. Eftir að lögin voru samþykkt varð reyndar samkomulag um það í ríkisstj. og við hæstv. fjmrh., að lög þessi yrðu látin ná til framkvæmda á árinu 1981. Við getum því sagt að þannig hafi framkvæmdinni verið dreift á sex ár. Lögin áttu að öðrum kosti ekki að taka gildi fyrr en í lok þessa árs og þá átti að liggja fyrir áætlun. I þessum lögum var jafnframt ákveðið að fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt af stofnkostnaði þessum.

Ég fól póst- og símamálastjórninni þegar að gera áætlun um að lokið yrði að koma sjálfvirkum síma um land allt og til allra notenda á þeim árum sem lögin gera ráð fyrir, þ. e. fyrir árslok 1986. Ég gaf póst- og símamálastjórninni þrjú atriði í veganesti: Í fyrsta lagi yrði þessu dreift dálítið á hin ýmsu kjördæmi þannig að sanngjarnt gæti talist. Í öðru lagi yrði framkvæmdum hagað þannig að sem hagkvæmast væri fyrir Póst og síma og ekki þyrfti að flyt ja vinnuflokka frá litlu verki yfir í annað lítið verk, heldur unnin samfelld verk eins og frekast væri hægt. Í þriðja lagi yrði tekið tillit til þess, hvernig háttað væri í dag, þ. e. hve langt væri komið lagningu sjálfvirks síma í einstökum kjördæmum og sveitarfélögum nú þegar þessi framkvæmd hefst.

Póst- og símamálstjóri afhenti mér síðan áætlun þessa í byrjun október. Hef ég látið dreifa henni hér á hinu háa Alþingi sem svari við þessari fsp. Það var gert fyrir a. m. k. viku, ef ekki tveimur, ég gerði þá ráð fyrir að svara fsp. Ég ætla því ekki að fara að lesa þessa áætlun, ég veit að allir hv. þm. hafa hana.

Ég hef ekkert á móti því, að einhverjar tilfærslur verði á milli framkvæmda, á milli svæða, en ég legg á það áherslu að það verði þá gert í samráði við Póst og síma, þannig að vel verði athugað að það falli inn í hagkvæmustu framkvæmdaröð. Ég get jafnframt upplýst það, að í sumum tilfellum reyndist ekki unnt að hraða ákveðnu verki vegna þess að viðkomandi stöð í þéttbýliskjarna var ekki nægilega vel útbúin til að taka við sjálfvirkum síma strax. Það eru sum svæði þar sem framkvæmd er reyndar töluvert langt á leið komin en stendur á slíku. Það kunna að vera ýmis slík atriði sem valdið hafa því, að eitt svæði hefur orðið síðbúnara en annað.

Herra forseti. Ég vil að lokum segja að ég held að það gæti verið viðkvæmt að fara að hreyfa mikið á milli kjördæma. Ég veit þó að ég þarf ekki að benda hv. þm. á það.