20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3957 í B-deild Alþingistíðinda. (3475)

247. mál, mat á eignum Iscargo hf.

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 499 leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. samgrh.:

„1. Hvers vegna greiddi fulltrúi samgrh. í stjórn Flugleiða hf. atkv. gegn því á stjórnarfundi félagsins hinn 11. mars s.l., að fram yrði látið fara mat óvilhallra manna á verðmæti þeirra eigna Iscargo hf. sem Arnarflug hf. hefur nú keypt?

2. Er samgrh. andvígur því, að slíkt mat fari fram?“ Herra forseti. Þetta mál hefur mjög borið á góma hér í sölum hins háa Alþingis og það ekki að ástæðulausu, enda sitt af hverju komið fram sem bendir til þess, að þau viðskipti, sem þarna áttu sér stað, hafi gerst með býsna sérstæðum hætti. Margoft hefur verið nefnt í þessum umr. að það kaupverð, sem þarna var greitt, hafi verið hátt og sumir segja óeðlilega hátt. Það hlýtur að teljast svo þegar haft er í huga að þessi kaup Arnarflugs á Iscargo voru til umr., án þess að margnefnd Electraflugvél væri þar inni í kaupunum, gerði stjórn Iscargo Arnarflugi tilboð um sölu á eignum upp á 10 millj. kr. Arnarflug svaraði með því að bjóða 6 millj. Iscargo svaraði aftur með því að bjóða 9 millj. Þá urðu þeir Arnarflugsmenn sammála um að það væri hrein tímasóun að eyða frekari tíma í viðræður við þá Iscargomenn nema forsendur breyttust verulega. Þarna hlaupa þessar eignir, mínus þessi margumrædda flugvél, á bilinu 6–10 millj. Ég held að þetta varpi svolítið nýju ljósi á það sem hér er um að tefla, í ljósi þess sem talað hefur verið um að umrædd flugvél væri metin. En þegar það svo gerist að í stjórn Flugleiða, sem eiga 40% í Arnarflugi, kemur fram tillaga um að fram fari mat óvilhallra manna á þessum eignum, þá fær það mál þær lyktir, að það er samþykkt, en það er samþykkt gegn tillögu sérstaks fulltrúa samgrh. í stjórn Flugleiða. Þar sem fulltrúi samgrh. er jafnframt fulltrúi ríkisins og fulltrúi almennings í stjórn þessa fyrirtækis og á að gæta hagsmuna ríkisins, hagsmuna skattborgaranna, er þessi spurning hér fram borin, af hvaða ástæðum fulltrúi samgrh. í stjórn Flugleiða hafi lagst gegn því, að fram væri látið fara mat óvilhallra manna á þeim eignum sem hér var um að ræða. Í öðru lagi er spurt hvort hæstv. samgrh. sé andvígur því, að slíkt mat fari fram.