20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3958 í B-deild Alþingistíðinda. (3477)

247. mál, mat á eignum Iscargo hf.

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Það gerist næsta oft í þessum málum að samgrh. segist ekki hafa sömu upplýsingar og alþm. Ég held að honum ætti að vera í lófa lagið að fylgjast nokkuð gjörla með þessum málum ef hann hefði á því áhuga.

Ég verð hins vegar að lýsa miklum vonbrigðum mínum með svar hæstv. ráðh. við þessu og það sem hann hefur eftir fulltrúa sínum í stjórn Flugleiða.

Í fyrsta lagi finnst mér merkilegt að fulltrúi samgrh. í stjórn Flugleiða skuli ekki hafa samráð við sinn ráðh. um afstöðu til meiri háttar mála sem stjórn fyrirtækisins tekur ákvarðanir um. Það finnst mér afar merkilegt. Satt best að segja hljóta þeir, sem eru fulltrúar ráðh. og ríkisins þar með í stjórnum slíkra fyrirtækja, auðvitað að þurfa að hafa samráð og samvinnu við sína yfirmenn í þeim efnum.

Í öðru lagi sagði ráðh. að ljóst hefði verið að allar upplýsingar um kaupin væru fáanlegar. Þetta dreg ég stórlega í efa. Allar upplýsingar um þessi kaup hafa hvergi nær:i komið fram. Á það hefur margsinnis verið bent.

Þá sagði ráðh., og hafði eftir fulltrúa sínum í stjórn Flugleiða, að fulltrúar Flugleiða væru mjög færir um að meta þessi verðmæti. Þar þykir mér aldeilis stangast á vegna þess að fulltrúar Flugleiða í stjórn Arnarflugs vildu ekki samþykkja þessi kaup og stjórn Flugleiða óskaði eftir mati hlutlausra aðila á verðmæti þessara eigna, en stjórn Arnarflugs felldi að láta slíkt mat fara fram þó svo fulltrúar Flugleiða í stjórn Arnarflugs vildu láta þetta mat fara fram. Ég fæ því ekki séð að þessi svör séu rétt. Ég verð því miður að segja það hér.

Hæstv. samgrh. segir, og hefur það eftir fulltrúa sínum, að fulltrúar Flugleiða séu manna færastir til að meta þetta. Það var ekki farið að þeirra vilja. Tillaga stjórnar Flugleiða var felld. Meiri hl. stjórnar Arnarflugs neitaði að verða við þeim tilmælum að láta fara fram mat á þessum eignum.

Þau eru býsna mörg klúðursmálin sem upp hafa komið núna að undanförnu og hæstv. ráðherrar Framsfl. hafa í töluverðum mæli haft afskipti af. Ég held að það væri öllum fyrir bestu að þessi mál væru hreinsuð og það kæmi fram í dagsljósið sem einhverra hluta vegna virðist ekki þola skímu dagsins.