20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3962 í B-deild Alþingistíðinda. (3483)

247. mál, mat á eignum Iscargo hf.

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hér er verið að spyrja um afstöðu annars af fulltrúum ríkisins í stjórn Flugleiða og afstöðu þess ráðh., sem hann valdi, til þeirrar afstöðu sem fulltrúinn hafði í stjórninni. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að það komi skýrt fram í kjölfar þeirra yfirlýsinga, sem hér hafa verið gefnar, m.a. af hæstv. ráðh., að þegar Alþingi tekur þá ákvörðun, eins og tekin var með lagasetningu fyrir nokkrum misserum, að þjóðin, íslenska ríkið fyrir hönd hennar, gerðist veigamikill hluthafi í einu stærsta fyrirtækis landsins, og Alþingi felur síðan ráðherrum umboð til að velja fulltrúa þjóðarinnar, ríkisins í þessa stjórn, þá geti enginn ráðh. skotið sér undan ábyrgð á afstöðu þeirra einstaklinga sem hann velur í þessa stjórn eða valdir eru í stjórnir annarra opinberra fyrirtækja, á sama hátt og Alþingi getur ekki skotið sér undan ábyrgð á þeim einstaklingum sem Alþingi velur til þess að gegna trúnaðarstörfum fyrir Alþingi og kosnir eru í formlegum kosningum hér á Alþingi. Sama reglan gildir að mínum dómi bæði í þessu tilviki og öðrum þegar ráðherrar hafa það vald að velja slíka fulltrúa þjóðarinnar. Þá fara fulltrúarnir með vald þjóðarinnar og ráðh. í viðkomandi stjórn Þeir, sem ábyrgir eru fyrir afstöðu þeirra, eru fyrst ráðh. og síðan þeir sem valið hafa ráðh. Það er alveg nauðsynlegt í umr. um þetta mál og um önnur mál þessu skyld eða sem tengjast öðrum fyrirtækjum, að mönnum sé ljós þessi grundvallarregla íslenska stjórnkerfisins.