20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3964 í B-deild Alþingistíðinda. (3487)

247. mál, mat á eignum Iscargo hf.

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Áður en þessari umr. lýkur vildi ég fá að undirstrika það með örfáum orðum, að þau svör, sem hæstv. samgrh. gaf hér áðan við fsp. minni, voru engin svör. Ég spurði hvers vegna fulltrúi samgrh. í stjórn Flugleiða hefði greitt atkv. gegn því að umrætt mat yrði látið fram fara. Við því komu engin svör. Það er auðvitað alveg ljóst, eins og hér hefur komið mjög skýrt fram, að ráðh. getur ekki með neinum hætti skotið sér undan ábyrgð á þessu.

Hins vegar hefur verið talað um að það sé fnykur af þessu máli. Ég held að það sé miklu meira. Það lyktar langar leiðir. Það er því miður ekki eina málið, sem ráðherrar Framsfl. hafa haft afskipti af að undanförnu, sem lyktar langar leiðir.