20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3977 í B-deild Alþingistíðinda. (3505)

368. mál, móðurmálskennsla í fjölmiðlum

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög þörfu og góðu máli. Stundum heyrir maður raunar að það sé fyrir neðan virðingu Alþingis að fjalla um íslenskt mál og atriði sem að því lúta. Ég er algerlega á öndverðum meiði þar. Það er margt óþarfara sem tekið er fyrir hér heldur en málefnalegar umræður um notkun íslensks máls og hvernig að því er staðið að halda uppi merki íslenskrar tungu meðal þjóðarinnar.

Mér finnst dapurlegt að heyra yfirlýsingar hæstv. ráðh. um tregðu útvarpsráðs til að taka fyrirmælum í þessu efni. Það er ljóst að útvarpið og þó öllu fremur sjónvarpið er hinn máttugasti miðill á þessu sviði sem öðrum. En jafnvel þó að margir góðir íslenskumenn tali í útvarp og sjónvarp verður maður þar oft og óþægilega fyrir illri og ambögulegri notkun íslensks máls. Þarna ber Ríkisútvarpinu, hljóðvarpi og sjónvarpi, ótvíræð skylda til þess að leggja sitt af mörkum til bóta.

Mér dettur nú í hug eitt lítið dæmi um hvað íslenskt mál fer oft illa í munni Íslendinga. Þar vaða uppi alls konar ambögur, ruglingur orðtaka og hugtaka. Mér kemur í hug ræða háskólamenntaðs manns í umræðum um bókasöfn. Hann lét svo um mælt, að það væri nauðsynlegt að börn fengju þegar í grunnskóla smjörþefinn af bókasöfnum. Og því nefni ég þetta að ég hef heyrt það oftar. Maðurinn ætlaði auðvitað að segja að það væri nauðsynlegt að börn fengju nasasjón af notkun bókasafna. Við heyrum iðulega talað um að eitthvað sé frámunalega fallegt og framúrskarandi ljótt. Því um líkar slaufur í málinu snerta dálítið þá sem eru að reyna að tala íslensku eins og afar okkar og ömmur gerðu hér á sínu alþýðumáli.

Ég verð að segja að mér finnst mikill fengur að íslenskuþáttum útvarpsins. Og mig rekur minni til að sjónvarpið gerði fyrir nokkru tilraun í þessa átt með litlum þætti, sem mig minnir að héti: Sjón er sögu ríkari, þar sem sýnt var með myndrænum og mjög skemmtilegum hætti notkun og uppruni ýmissa gamalla íslenskra orðtaka. Mér fannst verr og miklu miður að sjónvarpið skyldi leggja þennan þátt niður. En ég reis hér upp aðeins til þess að taka undir mál hv. flm. þessarar fsp., og ég veit að vilji ráðh. er góður í þessu máli líka.

Það eru ekki bara fjölmiðlarnir, sem við þurfum að huga að, það eru skólarnir líka. Það eru furðulegustu hlutir, sem gerast í íslenskukennslu í grunnskólunum í dag, og framhaldsskólunum líka. Að vísu veit ég um fjölda kennara sem leggja mikla alúð og rækt við sína móðurmálskennslu. Aðrir eru á þeirri línu að málfræði beri helst að gera útlæga úr málakennslunni. Mér kemur þá í hug samtal við Harald Bessason prófessor, mjög fróðleg grein, að mig minnir í Lesbók Morgunblaðsins um síðustu helgi. Ég hjó eftir því, að hann sagði þar: „Í gegnum málfræðina liggur leiðin að þekkingu á málinu.“ Við megum dálítið vara okkur á að láta útþynnast málfræðikennsluna í skólunum, þó að málfræðistaglinu, eins og það var áður fyrr, megi kannske linna nokkuð. Við megum ekki láta það ganga svo langt að fólk viti ekki lengur mun á fornöfnum, sögn eða atviksorði og orðflokkunum yfirleitt. Þetta er til stórvandræða, ekki hvað síst þegar kemur að erlendri tungumálakennslu í framhaldsskólunum. Okkur, sem erum að basla við það, er mikill vandi á höndum. Þess vegna vil ég, að þessu máli sé nú sinnt, og tek eindregið undir mál fim. fsp. um að hér verðum við að standa á verði því að okkar íslenska menning mun enn sem fyrr byggjast á íslenskri tungu.