20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3978 í B-deild Alþingistíðinda. (3506)

368. mál, móðurmálskennsla í fjölmiðlum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hv. þm. hafa komið hér og talað um „ófúsleika“ útvarpsráðs til að taka fyrirmælum. Ég verð nú bara að segja að mér finnst þetta ekki mjög lögulega til orða tekið, svo að ekki sé dýpra tekið í árinni. Ég bið menn að hugleiða það, að ef útvarpsráð á ævinlega að taka fyrirmælum frá Alþingi um hvað eina í dagskrárgerð, þannig að pólitískur meiri hluti á þingi verði í rauninni ráðandi um stefnu í dagskrárgerð ríkisfjölmiðlanna, þá held ég að það sé meira en hæpið.

Hins vegar er ég heils hugar fylgjandi þeirri till. sem hér er verið að fjalla um, að aukin verði íslenskukennsla, móðurmálskennsla, í þessum fjölmiðlum. Það hefur verið gerð grein fyrir því hér, hverjir þættir eru um þessar mundir í dagskrá útvarps. Ég held að þar komi afar glögglega í ljós hvern áhuga almenningur hér á landi hefur á þróun og varðveislu móðurmálsins. Allur sá bréfafjöldi, sem berst til þeirra þátta, gefur það mjög glöggt í skyn.

Hæstv. menntmrh. tók hér svo til orða, að sú ályktun Alþingis, sem hér er til umr., hefði alloft verið kynnt Ríkisútvarpinu. Það má vel vera. Ég hef átt sæti í útvarpsráði síðan 1978, seint á árinu. Ég kannast ekki við að þau tilmæli hafi komið þangað inn frá hæstv. núv. menntmrh. eða hans forverum í starfi. Þó má það vel vera.

Hins vegar er auðvitað ástæðulaust að draga hér í efa vilja forráðamanna Ríkisútvarpsins til að sinna þessu máli. Ég held að bæði útvarpsstjóri, sem er vel menntaður íslenskumaður, og sömuleiðis dagskrárstjóri hafi fullan hug á því. Mergurinn málsins og meginstaðreynd er hins vegar sú, sem ég hef endurtekið hér oft í þessum ræðustól og geri enn, að meðan ríkisstjórnir og hæstv. ráðh. leika vísitöluleik með afnotagjöld Ríkisútvarpsins og halda þeim langt fyrir neðan það sem eðlilegt mætti teljast og það sem ég hygg að fólk væri reiðubúið að borga fyrir þjónustu þessarar mikilvægustu menningarstofnunar okkar, meðan þessu heldur fram er Ríkisútvarpinu naumt skammtað fé til dagskrárgerðar. Þess vegna verður að horfast í augu við það, að það eru mörg verkefni sem ekki er hægt að sinna. Ég held að ef Alþingi vill láta sinna þessu máli sé einfaldasta, öruggasta og tryggasta leiðin til að fá því framgengt, að móðurmálskennslu verði sinnt með sóma í sjónvarpi og útvarpi, að Alþingi geri sérstakar fjárhagsráðstafanir til þess að svo megi verða. Og ég vona að hér á þingi, þó að það gerist kannske ekki þá fáu daga sem eftir eru væntanlega til þingloka, verði unnt að skapa samstöðu um það hér að taka þannig á þessu máli að eftir verði tekið og áhrif hafi.