20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3979 í B-deild Alþingistíðinda. (3507)

368. mál, móðurmálskennsla í fjölmiðlum

Fyrirspyrjandi (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans sem leiddu í ljós að ekki hefur verið farið að vilja Alþingis í þessu máli. Hv. 5. þm. Vesturl. segir: „Ef Alþingi vill.“ Alþingi hefur tekið ákvörðun og lýst yfir vilja sínum í þessu máli.

Hæstv. menntmrh. upplýsir að forráðamenn Ríkisútvarpsins, embættismenn íslenska ríkisins, séu af grundvallarástæðum ófúsir að fara að fyrirmælum hins háa Alþingis. Þetta er svo sem ekki nýtt fyrirbrigði. Hv. alþm. hafa löngum og löngum orðið að bíta í það súra epli, að embættismönnum hefur haldist uppi slíkt oflæti í skjóli framkvæmdavaldsins.

Ég ætla ekki nú og hér að setja á miklu lengri tölu um þetta mál. Það er augljóst að því hefur ekki verið fylgt eftir, ég tala nú ekki um ef það reynist rétt, sem síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Vesturl. upplýsti, að hér um bil frá því sem þessi ályktun var gerð hafi ekki verið við þessu hruggað af hálfu framkvæmdavaldsins hjá þessari stofnun. Það er enginn vafi á því, að sjónvarpið, sá nautsterki fjölmiðill, — hvergi höfum við önnur eins tök á að koma á framfæri eða að kenna íslenskt mál eins og þar, ég tala nú ekki um framburð. Og ef til þess þarf að grípa að leggja hér fyrir sérstakar tillögur um framkvæmdina, fjárveitingar til þess að af framkvæmdum verði, þá er það auðvitað athugandi.

Ég heyrði ekkert frá hæstv. menntmrh. um að hann hefði neinar ráðagerðir uppi um að taka til höndum í þessu máli, og helst virtist mér og heyrðist að hann léti slag standa með þá afstöðu sem fram hefur komið hjá forráðamönnum Ríkisútvarpsins. Það þykir mér leitt að heyra. En þá verða áhugamenn í þessu efni að taka til sinna ráða fljótlega. Við þetta verður ekki unað. Til að mynda er það með ólíkindum eins og manni virðist að stofnun eins og Ríkisútvarpið — og þá á ég við sjónvarpið um leið auðvitað því að það er ein og sama stofnunin — skuli ekki skeyta meir um málfar þeirra manna sem daglega tala í eyru þjóðarinnar. Það er útilokað að nefna nein nöfn í þessu sambandi, en þetta er þó staðreynd sem allir hljóta að viðurkenna að við blasir. Maður hélt að það væri algert lágmark að að þessu væri hugað sérstaklega. Það þarf ekki að taka fram að auðvitað hefur margur, á vegum útvarpsins sérstaklega, borið af og eins ýmsir fréttamenn, og auðvitað hefur margur, sem fram kemur í sjónvarpi, haft afbragðs tungutak. En eftir sem áður er hitt svo algengt að maður hlýtur að sannfærast um að ekki sé einu sinni að þessu hugað þar sem eiga í hlut starfsmennirnir. Og þá sér maður hversu áhuginn er litill, vegna þess að ekki kostar það aukafjárveitingu að huga að því, því að ekki er mönnum mismunað í kaupgreiðslum eftir því, hvernig málfari þeir beita. (EG: Það ætti kannske að gera það?) Það ætti kannske að gera það, það er rétt. Það ætti að verðlauna þá menn sérstaklega sem eru frambærilegastir í þessu efni.

Ég læt máli mínu lokið, hefði þó gjarnan kosið að hæstv. menntmrh. gæti einhverju bætt við um áætlanir sínar til þess að stugga við þeim sem eiga og ber skylda til, eftir fyrirmælum hins háa Alþingis, að taka til höndum í þessu mikilvæga máli.