20.04.1982
Sameinað þing: 77. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3980 í B-deild Alþingistíðinda. (3509)

368. mál, móðurmálskennsla í fjölmiðlum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það er auðvitað svo, að þegar skipta skal takmörkuðu fjármagni til dagskrárgerðar, þá er í býsna mörg horn að líta. Ég minni aðeins á einn þátt. Það eru gerðar þær kröfur til sjónvarpsins t.d., að það sinni íslenskri leikritagerð. Raunar er það svo, að það er samningsbundið að hluta til við leikara hversu langt skal gengið í þeim efnum. Það hygg ég að sé öllum hv. þm. líka kunnugt, að þetta er eitt dýrasta efni sem sjónvarpið fæst við að framleiða, þannig að það er ýmsu að sinna.

Það var aðeins eitt, sem hæstv. menntmrh. sagði áðan, sem ég ekki get látið ómótmælt. Hann talaði um tregðu þeirra starfsmanna, sem þarna eiga hlut að máli, væntanlega þá yfirmanna, til að sinna þessu hlutverki Ríkisútvarpsins. Nú á hæstv. ráðh. þarna væntanlega við útvarpsstjóra, dagskrárstjóra talaðs máls í útvarpi og dagskrárstjóra fræðsludeildar sjónvarpsins. Allir þessir menn eru mér vel kunnugir í gegnum langt samstarf og ég get ekki hlustað á það hér þegjandi, að þeir séu vændir um að vera áhugalausir um framgang íslenskrar tungu. Þvert á móti þekki ég þá alla sem mikla áhugamenn um íslenskt mál og íslenska menningu. Hins vegar, þegar svo naumt er skammtað sem raun ber vitni, verður auðvitað margt út undan. Fræðsluþættir um íslenskt mál hafa ekki orðið með öllu út undan. Það hefur nokkur viðleitni verið höfð uppi á þeim vettvangi. En það er margt sem hefur orðið alveg út undan í dagskrárgerð sjónvarpsins.

Ég vildi aðeins mótmæla þessu, vegna þess að ég hygg að það sé á engan hátt við þessa ágætu starfsmenn að sakast þótt þetta hafi orðið svona, og ítreka það, að það er ekki þeirra áhugaleysi á íslenskri tungu, viðhaldi hennar og framgangi sem hér er um að kenna.