05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (351)

41. mál, tölvustýrð sneiðmyndatæki

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Varðandi fsp. hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar vil ég fyrst taka það fram, að hér var auðvitað ekki um það að ræða að ríkisstj. væri að gefa Landspítalanum í sjálfu sér eitt eða neitt. Það var Alþingi sem tók ákvörðun um að veita fé til þessa verkefnis á Landspítalanum eins og Alþingi gerir venjulega þegar um er að ræða tækjakaup fyrir ríkisspítalana. Þessi ákvörðun var að vísu tekin af hálfu ríkisstj. í tengslum við afmæli Landspítalans. En mér finnst í raun og veru ekki eðlilegt að setja þetta þannig upp að hér hafi verið um að ræða eitthvert sérstakt gjafaloforð af hálfu ríkisstj., heldur var hér tekin ákvörðun um fjárveitingu til kaupa á þessu tiltekna tæki.

Ég ætla ekki að fara að karpa við hv. þm. um hver hafi haft forustu í þessu máli. Hann leggur á það mikla áherslu að hann hafi lagt fram till. á Alþingi um að skora á ríkisstj. að gera þetta. Hann má auðvitað segja það eins oft og hann langar til í þessum efnum. En auðvitað er heiðurinn, ef einhver er, Alþingis sem tók ákvörðun í málinu í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1981.

Varðandi það tölvustýrða sneiðmyndatæki sem kom til Borgarspítalans vil ég láta það koma hér fram, að það mál var aldrei borið undir heilbr.- og trmrn. áður en sú ákvörðun var tekin. Ég get látið það koma fram hér sem mína skoðun, að ég tel að slíkt séu ekki eðlileg vinnubrögð. Ég dreg mjög í efa að fleiri sjúkrahús þurfi á tölvustýrðum sneiðmyndatækjum að halda í landinu, a. m. k. ef um væri að ræða tæki sem eru jafnfullkomin og það sem Landspítalinn er nú að kaupa og kostar um 12.7 millj. nýkr. Ég held að áhersla í heilbrigðismálum hljóti að vera a. m. k. annars staðar áður en farið verður að búa önnur og mörg fleiri sjúkrahús í landinu tölvustýrðum sneiðmyndatækjum. Ég tel t. d. að það væri ástæða til að leggja áherslu á aðra þætti þar áður, eins og við höfum reyndar reynt að gera í stefnumótun í heilbrigðismálum, og mætti telja upp ótalmörg verkefni. Þetta tæki, sem var ákveðið að kaupa til Landspítalans, var og er brýn nauðsyn til að festa Landspítalann í sessi sem forustuafl í heilbrigðismálum hér, sem vísindamiðstöð heilbrigðismálanna í landinu, og með tilliti til þess tók Alþingi þessa ákvörðun.

Það hefur ekki staðið á því, að ríkisstj hafi staðið við sitt í þessum málum. Það liggur fyrir að stjórnarnefnd ríkisspítalanna hafði ein með það að gera, hvenær þetta tæki væri ákveðið af hennar hálfu. Ríkisstj. hafði ekki afskipti af því og tafir hafa engar orðið af hálfu ríkisstj. í þessu máli. Samningur um kaup á tölvustýrðu sneiðmyndatæki af gerðinni General Electric CCT 8800 var undirritaður 3. okt. 1981. Samningurinn var undirritaður með fyrirvara um staðfestingu stjórnarnefndar ríkisspítalanna. Samdægurs gekk Innkaupastofnun ríkisins frá pro forma pöntun á tækinu með sama fyrirvara. Stjórnarnefnd ríkisspítalanna óskaði þá eftir að framleiðandi tækisins, þ. e. General Electric, staðfesti öll ákvæði samningsins. Innkaupastofnun ríkisins var beðin um að afla þeirrar staðfestingar. Sú staðfesting af hálfu General Eleetric lá fyrir fyrst nú í dag. Innkaupastofnunin mun síðan ganga frá endanlegum samningum af sinni hálfu á næstunni, væntanlega strax á morgun.

Samkv. samningi á að afgreiða hluta búnaðar, þ. e. krabbameinsskráningarhlutann, strax og Landspítalinn getur tekið við honum. Aðalbúnaðurinn kemur hins vegar til landsins í mars 1982. Afhendingartíminn er miðaður við að lokið verði þjálfun þeirra tæknimanna Landspítalans sem sjá eiga um tækniþjónustuna svo að þeir geti tekið þátt í uppsetningarvinnunni. Hluti þjálfunarinnar fer fram í Bandaríkjunum og hefst 25. jan. og stendur í sex vikur.

Fob-verð tölvusneiðmyndatækisins er 5.8 millj. kr. Kostnaður, þ. e. flutningsgjöld, tryggingar, tollur og söluskattur, er talinn vera 4.8 millj. kr. þar ofan á. Samtals er kostnaður við tölvustýrt sneiðmyndatæki 10.6 millj. kr. Geislaplönunarkerfi, sem einnig er keypt, kostar 1.1 millj. kr. að fob-verði. Kostnaður er talinn um 1 millj. kr. Heildarkostnaður þar 2.1 millj. kr. Kostnaður við tölvusneiðmyndatæki og geislaplönunarkerfi er því samanlagt 12.7 millj kr.

Í þessum útreikningi á kostnaði er miðað við venjuleg gjöld af slíkum tækjum. Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um það af hálfu ríkisstj., að þessi gjöld verði felld niður, en um þau mál verður að sjálfsögðu fjallað. Ég undirstrika að í þeim efnum er margt að athuga, m. a. að hve miklu leyti unnt væri að yfirfæra slíka niðurfellingarheimild á tollum yfir á önnur tæki. Það allt þarf að kanna mjög rækilega áður en ákvörðun í þeim efnum er tekin.

Ég endurtek að sú ákvörðun, sem tekin var af hálfu borgaryfirvalda um kaup á tölvusneiðmyndatæki fyrir Borgarspítalann í Reykjavík, var tekin án samráðs við heilbr.- og trmrn.