20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3986 í B-deild Alþingistíðinda. (3529)

21. mál, votheysverkun

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hlýt að fagna þeim upplýsingum sem hv. 2. þm. Austurl. gaf um að Stofnlánadeild landbúnaðarins hefði hækkað lán út á votheyshlöður úr 40% í 50%. En ég vil jafnframt af þessu tilefni undirstrika það, að hér er að mínu viti allt of skammt gengið. Menn draga fæturna í þessu máli. Ég minni á að fyrir fimm árum var samþykkt hér á Alþingi till. nálega eins orðuð og efnislega alveg eins og till. sem hér er til umr. Menn gerðu sér þá vonir um að það mundi leiða til þess, að breyting yrði á heyverkunaraðferðum og við yrðum ekki lengur þannig staddir að 5% af heyöflun landsmanna væru verkuð í vothey á sama tíma sem nágrannar okkar verka sitt hey í vothey svo mikið að það eru 70% af þeirra fóðuröflun verkuð í vothey. En eftir fimm ár hafði nánast ekkert gerst í þessu efni, okkur hafði ekkert miðað áfram. Ég held að það verði ekki nægilega að gert í þessum efnum nema tekin sé upp markviss skipulögð barátta fyrir breytingu á þessu sviði með miklu meiri krafti en beitt hefur verið fram til þessa.