20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3988 í B-deild Alþingistíðinda. (3535)

95. mál, öryggisbúnaður fiski- og farskipahafna

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til umfjöllunar till. til þál. á þskj. 98 um skipun nefndar til að kanna öryggisbúnað fiski- og farskipahafna. Í till. felst að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að skipa þriggja manna nefnd til að gera heildarathugun á fiski- og farskipahöfnum landsins með tilliti til slysahættu sjómanna og annarra sem um hafnir fara. Skuli starf nefndarinnar miða að því: a) að benda á kunnar eða hugsanlegar slysagildrur við hafnarmannvirki og landgang skipa og báta, b) að benda á við hvaða hafnir landsins og á hvaða sviði sé helst og brýnust þörf úrbóta, c) að kanna aðbúnað til björgunar og slysavarna við hafnir landsins, d) að gera tillögur um leiðir til úrbóta í ofangreindu efni, sjómönnum og öðrum, sem um hafnir fara, til aukins öryggis.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það sem hér er á ferðinni, því hér er á ferðinni mikið nauðsynjamál og brýnt að þeirri heildarathugun, sem till. felur í sér á fiski-og farskipahöfnum með tilliti til slysahættu sjómanna og annarra sem um hafnir fara, verði hraðað eins og kostur er.

Nefndin fékk umsagnir frá siglingamálastjóra, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Slysavarnafélagi Íslands og Vita- og hafnamálastofnun, og mæla allir þessir aðilar eindregið með samþykkt till. Er m.a. á það bent, að hinn mikli fjöldi slysa og óhappa í höfnum bendi til þess, að í einhverju sé áfátt búnaði skipa og hafna eða þeim reglum er að öryggi og umferð lúta.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 495 leggur allshn. til að till. verði samþykkt óbreytt.