20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3988 í B-deild Alþingistíðinda. (3536)

95. mál, öryggisbúnaður fiski- og farskipahafna

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Mér þykir ástæða til að þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu á þessu máli. Þessi till. til þál. er flutt af hv. 1. varaþm. í Vesturlandskjördæmi, Jóni Sveinssyni. Eins og kom fram við umr. málsins er hér hreyft mjög merkilegu og góðu máli og þörfu, og þess vegna er mjög mikið ánægjuefni að það skyldi nást svona góð samstaða um afgreiðslu þess. Ég vonast til að samþykkt þessarar till. verði fylgt eftir þannig að hafnar verði úrbætur á þessu sviði eins og tillgr. gerir ráð fyrir. Hér er mjög gott mál á ferð og ég vil fyrir hönd flm. þakka afgreiðslu málsins úr nefnd.