05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

41. mál, tölvustýrð sneiðmyndatæki

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég lít svo á að það verði eitt af meiri háttar vandamálum sem við stöndum frammi fyrir á næstu árum, hvernig við verjum best fjármagni til heilbrigðismála. Svo standa menn hér upp og lýsa undrun sinni yfir því, að ráðh. skuli vera óánægður með að það skuli ekki vera haft samband við hann áður en dýr tæki eru keypt til landsins. Hver er það, sem á að hafa yfirstjórn á þessum málum, og hver er það, sem á að samræma að fjármagni sé varið sem best í þágu sjúklinga þessa lands, ef það er ekki heilbrmrh.? Ég vil gjarnan spyrja hæstv. heilbrmrh. og lýsa um leið því yfir, að ég er mjög sammála því sem hann sagði: Er það virkilega tilfellið að hér séu stofnanir og jafnvel læknar sem panti tæki sem ríkissjóður eigi að greiða, án þess að ríkissjóður hafi hugmynd um? Hvernig í ósköpunum ætla menn að koma á góðri skipan þessara mála ef svo á að vera? Svo leyfa hv. alþm. sér að standa upp og hneykslast á ummælum ráðh. í þessu sambandi.

Varðandi þessa umr. um opinber gjöld, og ríkissjóðshít, þá sé ég ekki mikinn mun á því, hvort ríkissjóður borgar opinber gjöld til sjálfs sín eða hvort þau eru felld niður. En það má vel vera að á þessu sé hinn mesti munur.