20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3998 í B-deild Alþingistíðinda. (3548)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því ágæta yfirliti sem þingheimur fékk af hálfu hæstv. forsrh. um störf stjórnarskrárnefndar og um það, hversu vel þeim miðar. Kemur það vel heim og saman við það mat, sem ég hef á lagt, og þau tíðindi, sem ég hef haft af þeim vettvangi. Ætti þess vegna ekkert að vera því til fyrirstöðu, að í ágústmánuði gæti Alþingi tekið þessi mál til meðferðar, eins og till. okkar Alþfl.-manna fjallar um.

Ég get vel fallist á þá ábendingu hæstv. forsrh., að það sé eðlilegt að orða þessa till. þannig að það sé áskorun til forseta um að þing verði kallað saman. Þetta er góð og gild ábending og fer sjálfsagt mun betur á því. En mér þótti gæta nokkurrar mótsagnar í málflutningi hæstv. forsrh. að öðru leyti.

Hæstv. forsrh. talaði um að það yrði leikur einn að afgreiða stjórnarskrána, fjalla um hana í þingflokkum, í þinginu, í nefndum, eftir því sem nauðsyn krefði á venjulegu þingi á næsta ári. Þá gerði ekkert til þó öll önnur mál ættu jafnframt að koma til umfjöllunar í þinginu, þá gerði ekkert til þótt þingmenn færu upp utan dagskrár og síðan, flyttu þáltill. og fsp., þá yrði engu að síður nægur tími til að fjalla um stjórnarskrármálið. Ef hins vegar ætti að kveðja saman sérstakt aukaþing til að fjalla um þetta mál mundi það verða til mikils vansa, ef einhver þm. impraði á einhverju öðru máli, og málið væri þar með ónýtt. Það væri líklegast ekki hægt að fjalla um stjórnarskrána á slíku aukaþingi vegna þess að einhverjir tækju til máls um eitthvert annað efni.

Nú hef ég ekki sömu áhyggjur og hæstv. forsrh. af skaplyndi þm. Ég trúi því, að ef þeir hafi sett sér að fjalla um þetta mál og ætlað til þess ákveðinn tíma sérstaklega,

þá muni þeir haga sér í samræmi við það. En jafnvel þó svo að einhver þm. impraði á einhverju öðru máli get ég ekki séð að það eyðilegði með öllu það að fjalla um stjórnarskrármálið á sérstöku aukaþingi. Ég get ekki séð annað en tíminn til þess að fjalla um málið væri langtum betri og meiri, tómið betra en að ætla að gera það innan um önnur þingstörf sem eru ærið annasöm hér á köflum.a.m.k. er það svo, að aldrei fær nein ríkisstjórn samþykki nóg af þeim frv. til laga sem hún hefur áhuga á hverju sinni, og stöndum við nú enn einu sinni frammi fyrir því. Meginatriðið er nefnilega það, að okkur hefur ekki tekist í nær fjóra áratugi að setja hinu íslenska lýðveldi nýja stjórnarskrá og þau mál hafa viljað lenda í eindaga, jafnvel þegar einstök atriði af því tagi koma til umfjöllunar.

Ég verð að segja það líka, að mér fannst að í þeim málflutningi hæstv. forsrh. að leggja sérstaka áherslu á að það yrði að byrja að nýju, ef þetta yrði tekið fyrir á næsta reglulegu þingi eftir aukaþing, fælist líka eins konar vantraust á þingmenn. að sú niðurstaða, sem þeir hefðu náð, allt það starf, sem þeir hefðu unnið á aukaþinginu. væri ónýtt. Ég hef ekki kynnst því, að þær niðurstöður. sem menn hafa komist að hér í þinginu, sú vinna. sem menn hafa lagt af mörkum, hún væri ónýt þó menn brygðu sér frá. Ég hef hins vegar vanist því, að slíkt kæmi að fullum notum, og ég er sannfærður um að svo mun einnig verða í þessu tilviki.

Ég vil að lokum segja það, að ef þessari till. verður nú hafnað og þessi mál lenda í eindaga á næsta þingi hefur það enn einu sinni brugðist að það tækist að setja lýðveldinu Íslandi nýja stjórnarskrá. Ég held að þeir þm., sem hafa verið í vafa um að það ætti að kalla saman aukaþing með þessum hætti, ættu að hugleiða þetta atríði alveg sérstaklega, nefnilega það, að með þessu móti væri greitt fyrir því og það ætti að geta verið tryggt, að þetta mál fengi eðlilega umfjöllun, góða umfjöllun í þinginu og næði lokaafgreiðslu fyrir næstu kosningar, hvenær sem þær yrðu ákveðnar. Það er mikið ábyrgðarspor hjá mönnum að taka þá áhættu að þetta mál fari í sama farveg og venjulega, lendi í eindaga og ekki takist að setja lýðveldinu nýja stjórnarskrá, og það er það alveg sérstaklega þegar komið hefur fram einlæg ábending, eins og þessi hér, um hvernig megi tryggja að þetta mál fái afgreiðslu og að þingið fái góðan tíma til að fjalla um það á sérstöku þingi.

Herra forseti. Ég vil svo að lokum leggja til að þessari þáltill. verði að lokinni umr. vísað til allshn.