20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3999 í B-deild Alþingistíðinda. (3549)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það eru þrjú atriði í þessari till. sem ég hef gert að umtalsefni. Í fyrsta lagi er ekki hægt með svona þáltill. á nokkurn hátt að tryggja að ekkert mál annað en stjórnarskráin komi til umr., eins og er megintilgangurinn með þessari till. Hún hefur að því leyti enga lagalega þýðingu því að þessum tilgangi nær þessi þáltill. ekki, eins og ég hef getið um og ekki er véfengt af hv. 1. flm. Allir þm. hafa rétt til að bera fram og ræða hvaða mál sem þeir vilja bera fram á þessu aukaþingi eins og öðrum. M.ö.o. stenst þessi meginforsenda ekki.

Í öðru lagi geri ég að umtalsefni, að samkv. till. á þetta aukaþing að afgreiða stjórnarskrá, og bendi á að þar með þyrfti náttúrlega strax á eftir að rjúfa þing. Nú hefur hv. 1. flm. viðurkennt þetta með því að draga til baka og telja nú að alls ekki eigi að afgreiða hana, heldur aðeins að fjalla um hana, en geyma afgreiðsluna til næsta reglulegs þings. Þetta annað meginatriði till. er þar með fallið um sjálft sig.

Í þriðja lagi benti ég á það, að Alþingi hefði samkvæmt okkar stjórnskipun ekki heimild til að ákveða að kalla saman aukaþing, heldur væri það verkefni forseta Íslands. Hv. 1. flm. hefur viðurkennt þetta og boðist til að breyta tillögunni.

Þessi þrjú meginatriði till., sem ég hef gert hér að umtalsefni, eru í rauninni öll saman fallin um sjálf sig þannig að eftir stendur í raun og veru ekkert af till. annað en nöfn flutningsmanna.