20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4012 í B-deild Alþingistíðinda. (3556)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan láta koma fram hér við þessa umr„ að ég tel að með þessari þáltill. sé ekki verið að benda á heppilegustu aðferðina til að koma á með þessum hætti næstu stjórnarskrárbreytingu, og vitna þar til þeirra umræðna sem hér hafa orðið nú á allra síðustu mínútum, þegar tveir ágætir þingflokksformenn eru komnir í hár saman af frekar litlu tilefni. Ég tel miklu heppilegra að hverfa ekki af markaðri braut, þ.e. að reyna að ná sem víðtækustu samkomulagi milli flokka, ekki á opnum þingfundum þar sem sitja 60 menn, heldur á miklu fámennari nefndarfundum, og síðan hafi nm. samráð við sína þingflokka. Framsfl. hefur tekið ákvörðun um að reyna til þrautar hvort samkomulag geti ekki tekist með öllum stjórnmálaflokkum um kjördæmaskipun á Íslandi. Við erum mjög áfram um að leita allra leiða til þess arna og höfum reyndar ekki rekist á nein ljón sem geri það ómögulegt.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér ítarlega þær breytingar sem ég tel eðlilegt að gerðar verði eða hugsanlegt að gerðar verði. Ég vil taka það fram, að við framsóknarmenn stóðum ekki að síðustu kjördæmabreytingu og berum því ekki ábyrgð á henni sem slíkri. Ég tel hins vegar að hrakspár þær, sem framsóknarmenn höfðu þá uppi, hafi ekki ræst, sem betur fer, og þessi kjördæmaskipun hafi reynst okkur tiltölulega vel og við höfum lært á hana, þ.e. mönnum hefur víðast hvar um landið tekist að byggja flokksstarf upp með hliðsjón af þessari kjördæmaskipun. Ég held að það sé skynsamlegt að halda sig við hana. Ég held, að rétt sé að jafna vægi atkvæða, og gæti vel hugsað mér að það yrði gert eitthvað að svipuðu marki og var 1959. Ég held að það sé nauðsynlegt að gæta mjög hófs um fjölgun þingmanna, þó að e.t.v. verði óhjákvæmilegt að fjölga þeim eitthvað. Ég held að til þess að jafna á milli kjördæma væri skynsamlegt að uppbótarþingmennirnir væru kosnir á tölu, en ekki á hlutfalli. Og ég tel ekki skynsamlegt að fækka þingmönnum í neinu kjördæmi.

Ég hef reyndar iðulega haldið því fram, að mjög væri orðum aukið það misrétti sem menn telja nú vera t.d. á milli flokka. Á milli flokka er ekki mjög mikið misræmi. Framsfl. kemur að vísu best starfandi stjórnmálaflokka út úr núverandi kjördæmaskipan, en þó munar það ekki neinum gríðarlegum ósköpum. Framsfl. fékk t.d. í síðustu kosningum nálægt því fjórðung atkvæða. Hann hefur 17 þingmenn en ekki 15 eins og honum hefði borið eftir atkvæðatölunni ef landið hefði verið eitt kjördæmi, eða nálægt 15 þingmönnum. Við vorum heppnir í þessum kosningum og fengum þingmenn fyrir lánlega skiptingu atkvæða á milli flokka, en þetta munar ekki óskaplega á styrkleik flokkanna. Það eru eitthvað rúmir 1800 kjósendur á bak við hvern þm. Framsfl. og rétt yfir 2000 á bak við þá sein flest atkvæði hafa. Ég man nú ekki þessar tölur nákvæmlega, enda skiptir það ekki öllu máli. Ég held að það sé ekki hægt að segja að það sé óskaplegt misræmi í valdahlutföllum flokkanna. Það er náttúrlega miklu meira misræmi milli atkvæðamagns á milli kjördæma, en þó er það ekki eins ógurlegt og menn vilja sumir vera láta. Af þessum 60 þingmönnum háði 21 sína kosningabaráttu í Reykjavík eða á Reykjanesi og einungis þriðjungur þingmanna er búsettur utan Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæma. Ég held því að menn geti ekki með rökum talið hlut þéttbýlissvæðisins hér á suðvesturhorninu hættulega fyrir borð borinn þannig að lýðræðinu og þjóðfélaginu stafi hætta af.

Vetrarkosningarnar 1979 hefur borið hér á góma. Ég vil taka það fram, að mér þóttu þær ganga vel fyrir sig. Og ég tel að haustkosningar hafi afar margt til síns ágætis, m: a. að fenginni reynslu úr þessum kosningum. Það kann vel að vera að þáv. hæstv. forsrh. Benedikt Gröndal og þáv. hæstv. dómsmrh. Vilmundur Gylfason hafi átt sinn hlut að því, að þessar kosningar gengu vel. En einn var þó sá sem átti miklu stærri hlut að því hvað framkvæmd þeirra tókst vel. Það var guð atmáttugur, því að hann gaf góða tíð. (ÓRG: Hann er líka krati.) Hann er ekki krati, ég leyfi mér að fullyrða það.

Ég tel ekki ástæðu til að samþykkja þessa till. eins og hún liggur fyrir. Ég held að mátið sé í góðum höndum hjá stjórnarskrárnefnd og undir forustu hæstv. forsrh., og ég vænti skynsamlegrar niðurstöðu af því starfi sem þar er verið að vinna.