20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4017 í B-deild Alþingistíðinda. (3560)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir það að fá að gera hér örstutta athugasemd. Ég tel það alveg nauðsynlegt vegna þess að bæði hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og eins hv. þm. Eiður Guðnason virðast ekki enn hafa skilið að það var alger samstaða innan stjórnarskrárnefndar af hálfu fulltrúa allra þingflokka, fulltrúar allra þingflokka bera á því ábyrgð og það voru rétt vinnubrögð að skita skýrslu til þingflokkanna um þau tillögusvið og þær hugmyndir að breytingum sem fram höfðu komið í nefndinni. Í þeim tveimur skýrslum, sem þá voru lagðar til þingflokkanna, eru reifaðar hugmyndir að breytingum á öllum þeim atriðum sem um er getið í þeirri till. sem hér var vikið að áðan. Ég endurtek það, að ég tel það ekki rétta leið til þess að halda áfram góðum anda í samvinnu þingflokkanna um þetta efni að fara að standa hér upp nú og flytja ásakanir á formann stjórnarskrárnefndar eða aðra aðila fyrir það, að þeir beri ábyrgð á því, að hér hafi orðið um einhverja seinkun að ræða, sem ég tel alls ekki vera, vegna þess að það var orðið við þeirri skyldu að skila skýrslu á réttum tíma.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vitnaði hér í eina setningu sem Geir Hallgrímsson mælti í umr. á sínum tíma. (SighB: Er hún ekki fyrir brtt. allra þingflokka á Alþingi?) Það er rétt, hann mælti fyrir brtt. En það er nú einu sinni svo með tillögu, sem Alþingi flytur og samþykkir, að orðalag hennar er rétthærra en ein setning hjá einum þm. Ég tel að Alþingi sjálft og sú túlkun, sem samþykkt var í stjórnarskrárnefnd af fulltrúum allra þingflokka — og aldrei hefur verið gerð athugasemd við fyrr en hér nú í kvöld mér vitanlega, á þann hátt sem hér hefur verið gert — séu réttbær aðili til að túlka þetta. Ég vil hins vegar, herra forseti, gera að orðum mínum hér að lokum þær skoðanir orðréttar sem komu fram hjá báðum þeim þm. sem töluðu á undan Geir Hallgrímssyni í þessum umr. Þeir voru auk Geirs Hallgrímssonar þeir einu þm. sem töluðu við þetta tækifæri samkvæmt Alþingistíðindum. Það vill svo skemmtilega til að þessir tveir þm., sem töluðu þarna sitt hvorum megin við Geir Hallgrímsson, eru báðir þm. Alþfl. fyrir Vestfirði nú. Sá, sem talaði á undan Geir Hallgrímssyni, er Karvel pálmason, og sá, sem talaði á eftir Geir Hallgrímssyni, er Sighvatur Björgvinsson. Ég vil lesa hér upp tilvitnanir fyrst í ræðu Karvels Pálmasonar og síðan örstutta tilvitnun í ræðu Sighvats Björgvinssonar og gera þessi ummæli þeirra félaganna, þm. Alþfl. úr Vestfjarðakjördæmi nú. að mínum orðum í þessari umr.

Hv. þm. Karvel Pálmason sagði örfáum mínútum áður en Geir Hallgrímsson flutti ræðuna sem Sighvatur Björgvinsson vitnaði til orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Ég er annarrar skoðunar. Ég tel að þar sé ekki við stjórnarskrárnefnd að sakast. Þessar breytingar á kosningalögum hefði verið hægt að gera hér á Alþingi hefði verið vilji eða áhugi fyrir því, burt séð frá því hvað starfi stjórnarskrárnefndar leið. Ég vil vísa á bug aðdróttunum um það, að stjórnarskrárnefnd sé fyrst og fremst Þrándur í götu og sökudólgur fyrir því, að ekkert hafi gerst í breytingum varðandi þessi mál nú á þessu þingi. Og sérstaklega vil ég þó vísa á bug þeim áróðri, sem mikið hefur verið uppi hafður. og sakfellingu á formann stjórnarskrárnefndar sem ég tel að hafi verið að ástæðulausu sakfelldur um vanrækslu í störfum, til þess að fara að tala um það hér sérstaklega nú.“

Ég vil beina því til hv. þm. Sighvats Björgvinssonar að áður en hann talar hér næst lesi hann þessa ræðu félaga síns, hv. þm. Karvels Pálmasonar, og lesi einnig ræðu sína, sem hann flutti einni mínútu eftir að Geir Hallgrímsson mælti þau orð sem hann vitnaði til áðan. Ég mun ljúka mínu máli með því að lesa tilvitnun úr þessari ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og gera öll hans orð að mínum. Sighvatur Björgvinsson sagði við þetta tækifæri. með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ekki vandalaust að gera þær breytingar sem rætt hefur verið um að gera þurfi. Reynslan sýnir okkur að það hefur ávallt tekið talsverðan tíma og þurft talsvert mikið til að þær breytingar yrðu gerðar. Flokkarnir hafa verið að safna að sér gögnum alveg eins og stjórnarskrárnefnd. Innan flokkanna eru ýmsar hugmyndir og tillögur sem ræddar hafa verið. Það hefur einfaldlega ekki verið tímabært hjá flokkunum að taka neina flokkslega afstöðu enn þá til þeirra hugmynda sem fram hafa komið. Það er skýringin á því hvernig á því stendur að stjórnarskrárnefnd hefur ekki skilað tillögum. Ég tel það ákaflega lítilmannlegt af flokkanna hálfu að ætla að afsaka þennan seinagang með því að skjóta sér á bak við formann stjórnarskrárnefndar.“

Herra forseti. Tilvitnun lýkur. Þessar síðustu setningar í ræðu Sighvats Björgvinssonar eru mun gáfulegri en þær ræður sem hann hefur flutt hér í kvöld.