20.04.1982
Sameinað þing: 78. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4021 í B-deild Alþingistíðinda. (3563)

249. mál, aukaþing til að afgreiða nýja stjórnarskrá

Páll Pétursson:

Herra forseti. Vegna orða hv. 2. þm. Reykn., Kjartans Jóhannssonar, vil ég taka það fram, að mér hefur náttúrlega aldrei dottið í hug að stjórnarskrármálið yrði ekki rætt á Alþingi. Það, sem ég átti við, var að það væri óskynsamlegt að fara að leiða þingheim saman, þ. á m. hina ágætu kollega mína, formenn þingflokka Alþfl. og Alþb., á opinberum vettvangi í miðri gúrkutíðinni í sumar, þegar fátt skeður fréttnæmt fyrir blaðamenn, til þess að ræða viðkvæm mál eins og kjördæmaskipun og kosningalög. Ég held að það sé réttari aðferð að reyna fyrst að ná samkomulagi í nefnd og á milli þingflokka, áður en umræða hefst á þingfundum að viðstöddum blaða- og fréttamönnum, því annars væru hv. þm. — og vitna ég þá til þeirrar reynslu sem við höfum fengið á þessum fundi í kvöld — vísir til þess að fara í hár saman og það finnst mér illa farið með tímann, satt að segja. Þetta samkomulag sé ég ekki að verði komið á í ágúst í sumar, enda er alveg nógur tími til stefnu þó að svo verði ekki. Ég held að það sé viturlegra að hafa fleira fyrir stafni á þinginu þegar þetta verður til meðferðar. Menn geta sinnt ýmsum öðrum þingstörfum jafnvel þó að verið sé jafnframt að fjalla um mikilvæg mál eins og stjórnarskrármálið.