21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4026 í B-deild Alþingistíðinda. (3577)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.og trn. hefur haldið fund um þetta mál, þ.e. frv. til l. um breyt. á lögum nr. 52/1975, um Viðlagatryggingu Íslands. Í sjálfu sér er óþarfi að taka hér fram um aðdraganda þessa máls, en ég vil leyfa mér að lesa örlitinn hluta úr grg. sem fylgir frv.

Það var sett á laggirnar nefnd á sinni tíð. sem fékk það hlutverk að kanna möguleika á að stofna til trygginga þar sem gert væri ráð fyrir að þjóðin yrði tryggð fyrir meiri háttar áföllum af náttúruhamförum, eins og efnislega er rakið í skipunarbréfi þeirrar nefndar. En í nefndinni voru Guðmundur Hjartarson bankastjóri, Pétur Stefánsson verkfræðingur, Þorleifur Einarsson jarðfræðingur og Ásgeir Ólafsson fyrrv. forstjóri Brunabótafélags Íslands, sem jafnframt var formaður umræddrar nefndar.

Nefndin, sem vann að undirbúningi, eins og tekið er fram hér, gildandi laga um Viðlagatryggingu Íslands 1975, aflaði á þeirri tíð ýmissa upplýsinga um slíkar eða áþekkar tryggingar í öðrum löndum og hér er verið að fjalla um. Of langt mál er að rekja þann þátt hér. Það mun þó óhætt að halda því fram, að óvíða sé eins víðtæk trygging starfræki með öðrum þjóðum sem Viðlagatrygging Íslands er nú.

Heilbr.- og trn. fékk til fundar Ásgeir Ólafsson fyrrum forstjóra Brunabótafélagsins sem veitti forstöðu nefnd þeirri sem ég var að geta um. Heilbr.- og trn. naut auðvitað ágætrar leiðsagnar hans og gjörkunnugleika á tryggingamálum.

Ég held að það sé hyggilegast, til þess að hv. dm. glöggvi sig á því, hvað hér er um að ræða, að ég fari nokkuð ítarlega yfir lagagreinarnar í frv., en áður en að því er komið vil ég aðeins ítreka að nefndin, sem vann þetta frv., gekk þær götur með því hugarfari að hér væri verið að endurbæta og færa inn í ýmsa nýja tryggingaliði —þætti sem tryggðir yrðu í ljósi þess að þjóðin þyrfti að tryggja sig fyrir hinum stærri áföllum. Hér er ekki um það að ræða að taka til minni háttar tjóna. Hér er fyrst og fremst um „katastrofu“-tryggingu að ræða, eins og viðlagatryggingin hefur raunar alla tíð verið hugsuð.

1. gr. frv. hljóðar um breytingar á 5. gr. viðlagatryggingarlaganna. Hér stendur, með leyfi forseta:

„5. gr. orðist svo: Eftirtalin verðmæti er skylt að tryggja:

a. Allar húseignir og lausafé, sem í þeim er geymt, þar með taldar vörubirgðir, vélar og tæki, enda séu þessi verðmæti brunatryggð hjá vátryggingarfélagi eða stofnun, sem starfsleyfi hefur hér á landi. Tryggingarskylda nær einnig til lausafjár, sem tryggt er almennri samsettri tryggingu, er innifelur brunatryggingu, enda flokkist slíkt trygging undir eignatryggingar samkv. skilgreiningu tryggingaeftirlitsins. Þó skulu þær tryggingar, er flokkast undir svonefndar „All risks“ tryggingar eða einstakar sértryggingar, ekki falla undir viðlagatrygginguna, nema með sérstöku samþykki stjórnar stofnunarinnar. Tryggja skal allt ræktað land og lóðir, sem metin eru af Fasteignamati ríkisins.“

Fyrri hluti þessa a-liðar er raunar mjög svipaður og er í gildandi lögum. Viðbótin er fyrst og fremst niðurlag þessa liðar.

Í b-liðnum eru síðan talin upp þau mannvirki sem fyrst og fremst eru tryggð til viðbótar því sem áður hefur verið tryggt. Að vísu var búið að taka fram um ræktað land og lóðir. Hér er fyrst og fremst um að ræða verðmæti í opinberri eigu. Ég mun nú lesa það upp, með leyfi forseta:

„b. Neðangreind mannvirki: Hitaveitur. Vatnsveitur. Skolpveitur. Hafnarmannvirki. Brýr. Raforkuvirki, þar með talin dreifikerfi, stíflur og veitumannvirki. Sími og önnur fjarskiptakerfi, þar með talin dreifikerfi hljóðvarps, sjónvarps og flugþjónustu.“ Síðan stendur: „Heimilt skal stjórn stofnunarinnar, að fengnu samþykki ráðh., að ákveða að stofnunin taki að sér að tryggja önnur verðmæti en þau sem falla undir skyldutrygginguna samkv. a- og b-lið hér að framan.“

Þetta niðurlag táknar auðvitað það, að aðilar, sem hafa með höndum verðmæti sem ekki falla undir þessa tryggingu, geta snúið sér til viðlagatryggingar með tilliti til þess, að viðlagatrygging taki að sér að tryggja verðmæti sem farið er fram á að tryggð séu. Þarna er tryggingin opnuð í verulega ríkari mæli en verið hefur, ef ég má svo að orði komast.

2. gr. frv. hljóðar fyrst og fremst um mat hins tryggða.

„6. gr. orðist svo: Vátryggingarfjárhæðir skulu ákveðnar þannig:

a. Öll verðmæti, sem brunatryggð eru, skulu tryggð fyrir sömu fjárhæð og brunatryggingin nemur á hverjum tíma.“

Þessi liður, a-liðurinn, er raunar alveg eins og áður var í lögunum. Viðbótin er fyrst og fremst eftirleiðis:

„b. Ræktað land og lóðir skulu tryggð fyrir þá fjárhæð, sem þau eru skráð á hjá Fasteignamati ríkisins á hverjum tíma.

c. Mannvirki, sem tryggð eru samkv. b-lið 5. gr., skulu tryggð fyrir áætlað endurbyggingarverð.

d. Verði heimildarákvæði 5. gr. notað skulu verðmæti, sem tryggð verða, tyggjast á raunvirði.“

3. gr. fjallar fyrst og fremst um eigin áhættu:

„7. gr. orðist svo: Eigin áhætta vátryggðs skal vera 5% af hverju tjóni, þó eigi lægri fjárhæð en hér segir:

a. Verðmæti, sem tryggð eru samkv. a-lið 5. gr., lágmarksfjárhæð kr. 5000.

b. Verðmæti, sem tryggð eru samkv. b-lið 5. gr., lágmarksfjárhæð kr. 50.000.

c. Verðmæti, sem tryggð verða samkv. heimildarákvæði 5. gr., lágmarksfjárhæð ákveðin hverju sinni af stjórn stofnunarinnar, innan þeirra marka, sem gilda fyrir a- og b-lið hér að framan.

Ofangreindar lágmarksfjárhæðir skulu umreiknast til samræmis við gildandi vísitölu byggingarkostnaðar á hverjum tíma.“

Hingað til hefur verið gert ráð fyrir að slík u væri breytt með reglugerð hverju sinni.

4. gr. frv. fjallar um iðgjöldin og þar segir svo, með leyfi forseta:

„8. gr. orðist svo: Árleg iðgjöld skulu vera þessi:

a. Af verðmætum, sem tryggð eru samkv. a-lið 5. gr. 0.25'%°.

b. Af verðmætum, sem tryggð eru samkv. b-lið 5. gr.

0.20%°. c. Af verðmætum, sem tryggð verða samkv. heimildarákvæði 5. gr. reiknast iðgjald, sem stjórn stofnunarinnar ákveður hverju sinni“.

Ég lít svo til, að það sé óþarfi að lesa lengra úr þessari grein. Meginhlutinn af greininni, það sem ólesið er, er samhljóða því sem fyrir er í lögum. Þar er fyrst og fremst fjallað um hreina eign stofnunarinnar með tilliti til þess gjalds sem tekið er í því skyni að tryggja eign, góðan fjárhag, tryggja að viðlagatryggingin rísi undir nafni, að hún sé í stakk búinn að mæta þeim áföllum sem hún þarf e.t.v. að rísa undir. Þar er gert ráð fyrir því, eins og er í lögum, að iðgjaldið kunni að lækka eða hækka eftir atvikum, eftir því hvernig eiginfjárstaða viðlagatryggingar er hverju sinni.

5. gr. „Upphaf 1. mgr. 9. gr. hljóði svo:

Telji vátryggður að gerst hafi bótaskyldur tjónsatburður, skal hann tilkynna það stjórn Viðlagatryggingarinnar eða vátryggingarfélagi því o.s.frv.“ Ég fer ekki að lesa úr frv. lengra. Áður var þetta þannig, að þetta skyldi tilkynna vátryggingarfélagi. Nú er gert ráð fyrir að tjón sé tilkynnt beint til stjórnar Viðlagatryggingarinnar.

6. gr. fjallar fyrst og fremst um meðferð tjóna og möt, en þar stendur:

„12. gr. orðist svo:

Stjórn Viðlagatryggingar Íslands skal setja reglur um meðferð tjóna og möt. Við uppgjör tjóna skal stjórn stofnunarinnar leita til hæfra og óvilhallra matsmanna. Heimilt er stjórn stofnunarinnar að fela viðkomandi tryggingarfélagi uppgjör minni háttar tjóna. Nánari ákvæði um skipun matsmanna, matsreglur og uppgjör tjóna skal setja með reglugerð.“

Ég sé ekki ástæðu til að fjalla um þessa grein frekar. Þessi grein er allverulega stytt og einfölduð frá því sem er í gildandi lögum.

7. gr. „Í stað síðustu mgr. 13. gr. komi ný mgr. er orðist svo:

Sömu reglur gilda um önnur tryggð verðmæti eftir því sem við á.“

Hér er um það að ræða að heimildin er aðeins víðari. Hún er rýmkuð frá því sem verið hefur, þ. e, heimildargreinin um að lækka eða synja alveg um bætur.

8. gr. „19. gr. orðist svo:

Stjórn stofnunarinnar er heimilt að veita fé til rannsókna og til að styrkja framkvæmdir, sem ætlað er að varna, tjóni af völdum náttúruhamfara. Enn fremur er stjórninni heimilt að veita styrki til björgunarsveita vegna starfsemi, sem viðurkennd er af Almannavörnum ríkisins.“

Það, sem er nýtt við þessa grein, er að gert er ráð fyrir heimild til að veita fé til rannsókna og enn fremur að það sé hægt að veita styrki til björgunarsveita vegna þeirrar starfsemi sem viðurkennd er af Almannavörnum ríkisins.

9. gr. er raunar eins og margt í þessu. Það leiðir hvað af öðru. 9. gr. er til samræmis við aðrar breytingar sem lagðar eru til: „1. mgr. 22. gr. orðist svo:

Stjórnin skal semja við þau vátryggingarfélög og aðra aðila, sem annast störf fyrir stofnunina samkv. lögum þessum. Náist ekki samkomulag um þóknun fyrir slík störf, sker trmrh. úr ágreiningi.“

10. gr. gerir ráð fyrir að lögin taki gildi, ef samþykkt verða, 1. jan. 1983.

Herra forseti. Ég þykist hafa farið yfir frv. eins og það liggur hér fyrir. Heilbr.- og trn. hefur ekki breytingar fram að færa á frv. Það skal viðurkennt að við eyddum ekki löngum tíma í að athuga þetta mál. Þó hygg ég að þm. hafi sett sig allvel inn í það. Tími, sem fer í athugun mála, segir ekki alla sögu.

Ég vil í lokin segja frá því, enda þótt það sé einhverjum kunnugt, hver staða Viðlagatryggingar er í ljósi fjárhags. Í lok liðins árs voru í sjóði, má segja, um 60 millj. kr., í lok ársins 1981. Gert er ráð fyrir að innheimta á þessu ári 15–16 millj. kr. og er þá að sjálfsögðu miðað við núgildandi lög. Sú viðbót að verðmætum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, ef innheimt væru gjöld í ljósi þeirra verðmæta, mundi auka tekjur Viðlagatryggingar um 5.4 millj. kr. og samtals yrði þetta um 21 millj. kr.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli á að Viðlagatrygging greiðir að hámarki fyrstu 2 millj. dollara í hverju tjóni. Þeir samningar, sem nú liggja fyrir og hafa legið fyrir og eru auðvitað í gildi við endurtryggingaraðila, gera ráð fyrir að umræddir endurtryggingaraðilar greiði allt að 28 millj. dollara í hverju tjóni.

Það, sem tryggt er í dag, er áætlað vera um 80 milljarða verðmæti. Það, sem hér er gert rá fyrir að auka við, er um 27 milljarða kr. virði. Hér er auðvitað um gífurlegar tölur að ræða.

En að síðustu: Ég þakka heilbr.- og trn. fyrir fljóta og góða afgreiðslu í ljósi ágætrar samvinnu um þetta mál. Um þetta hygg ég að sé enginn ágreiningur. Við viljum öll standa saman um að verjast hinum stærstu áföllum. Nefndin leggur eindregið til að þetta frv. verði samþykkt.