21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4029 í B-deild Alþingistíðinda. (3579)

286. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég flyt það frv., sem hér er til umr., ásamt hv. þm. Eiði Guðnasyni og Agli Jónssyni. Þetta frv. er um jöfnun hitunarkostnaðar.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að eitt mesta misrétti, sem fyrirfinnst í þjóðfélaginu í dag, er fólgið í hitunarkostnaði. Hitunarkostnaður þess fólks, sem býr við lakastan kost, er óbærilegur. Þess vegna láta menn sér svo tíðrætt um hitunarkostnað sem raun ber vitni. Nokkuð hefur verið bætt úr ófremdarástandinu með niðurgreiðslu á olíu til upphitunar húsa. Samt sem áður er ástandið með öllu óviðunandi. Með tilliti til þessa er frv. þetta flutt.

Við vandanum verður brugðist með tvennu móti: Annars vegar að flýta svo sem verða má öllum framkvæmdum til að innlendir orkugjafar komi í stað olíu og ódýrari innfluttur orkugjafi verði nýttur í stað dýrari orkugjafa og orkunýting verði bætt. Hér er um að ræða það sem heyrir til frambúðarlausnar í þeim vanda sem við er að glíma. Hins vegar er að auka niðurgreiðslu orkugjafa til húshitunar. Hér er um að ræða bráðabirgðaráðstafanir meðan unnið er að frambúðarlausn. Þessar bráðabirgðaráðstafanir þola ekki bið og fjallar þetta frv. um þær.

Það er nú svo komið, að 172 þús. af 229 þús. íbúum landsins hafa húshitun sína frá hitaveitum með jarðvarma. Hér er um áð ræða um 35 millj. rúmmetra húsrými af um 45 millj. rúmmetra húsrými sem samtals er í landinu. Orkusala hitaveitnanna 27 að tölu nemur nú um 2 800 gwst. á ári, en heildarorkusala til húshitunar í landinu nemur samtals 3 700 gwst. á ári. Ódýrrar rafhitunar njóta nú um 6000 íbúar landsins, sem ráða yfir um 1 millj. rúmmetra húsnæðis og þurfa um 80 gwst. á ári til upphitunar sinna húsa. Meðaldýra rafhitun hafa 4000 íbúar með um 700 þús. rúmmetra húsnæði og nota þeir um 60 gwst. á ári. Rafmagnsveitur ríkisins, Orkubú Vestfjarða og hitaveitur þessara fyrirtækja, sem nota rafmagn og olíu sem orkugjafa, sjá um 26 þús. íbúum landsins fyrir húshitun. Nemur húsnæði þeirra um 4.5 millj. rúmmetra og þarf til þeirrar húshitunar um 370 gwst. á ári. Þeir, sem kynda hús sín með olíu, eru um 2l þús. að tölu og ráða yfir 2.6 millj. rúmmetra húsnæðis og þurfa til upphitunar húsa sinna um 210 gwst. á ári. Þetta, sem ég hef nú sagt, gefur nokkra mynd og ég ætla á sinn hátt glögga mynd af því hvernig ástandið er.

Á síðari árum hefur mjög miðað til frambúðarlausnar í húshitunarmálum með hinum miklu hitaveituframkvæmdum sem átt hafa sér stað. Nú er svo komið að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar býr við þann kost, sem bestur er í húshitun, þar sem eru hitaveitur með jarðvarma sem orkugjafa. En á sama tíma er hlutur þeirra, sem ekki fá notið þessarar aðstöðu, því miður allsendis óviðunandi.

Nú er ástandið þannig að meðalorkuverð hitaveitna nemur um 22.7% af hitunarkostnaði með olíu, hitunarkostnaður með ódýrri rafhitun nemur 38.4% af olíukostnaði og hitunarkostnaður með meðaldýrri rafhitun nemur 55.6% af hitunarkostnaði olíu. Raforkuverð Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða til húshitunar og orkuverð frá hitaveitum þessara fyrirtækja, sem hafa rafmagn og olíu sem orkugjafa, nemur 65.1 % af upphitunarkostnaði með olíu. En niðurgreidd olía til húshitunar nemur 70.5% af olíuverði.

Það er af þessu sem má marka að mestur er misjöfnuðurinn gagnvart þeim sem kynda hús sín með olíu, þrátt fyrir olíustyrkinn sem nú er greiddur. Þá fylgir fast eftir í ójöfnuðinum það fólk sem býr við rafmagnsupphitun frá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða og upphitun frá hitaveitum þessara fyrirtækja sem nota rafmagn og olíu sem orkugjafa. Meginatriðið er því að rétta hlut þessa fólks, sem er um 47 þús. að tölu og ræður yfir 5.1 millj. rúmmetrum í húsnæði og þarf til upphitunar húsa sinna um 580 gwst. á ári. Þetta frv., sem við nú ræðum, tekur mið af þessari staðreynd.

Það er gert ráð fyrir að takmörk séu fyrir því, hve mismunur á hitunarkostnaði megi vera mestur. Gert er ráð fyrir að menn hljóti að geta komið sér saman um að einhvers staðar hljóti að vera takmörk í þessu efni. En með tilliti til þessa kveður frv. svo á að verð olíu skuli greitt niður sem nægi til að olíukostnaður við kyndingu húsa verði eigi hærri en sem nemur 2.5-földu vegnu meðalverði hjá hitaveitum landsins sem hafa jarðvarma að orkugjafa. Af þessu leiðir, að samkv. ákvæðum frv. verða sjálfvirkar breytingar á upphæð niðurgreiðslunnar sem fylgja breytingum á verði olíu og jafnframt breytingum á gjaldskrám hitaveitnanna. Hækkun gjaldskrár hitaveitna hefur því áhrif til lækkunar á upp hæð olíustyrksins engu síður en hækkun olíu hefur að öðru jöfnu áhrif til hækkunar á olíustyrknum.

Vegið meðalverð hjá hitaveitum landsins er nú 22.7% af óniðurgreiddu olíuverði eða 13.1 aurar á kwst. Samkv. frv. verður hví hæsta verð olíukyndingar húsa 32.8 aurar á kwst. Óniðurgreiddur kostnaður við olíukyndingu er hins vegar 57.9 aurar á kwst. og nemur því niðurgreiðsla á olíu samkv. frv. 25.1 eyri á kwst. Er þá kostnaður olíukyndingar samkv. frv. 26.7% af kyndingu með óniðurgreiddri olíu og nemur þá niðurgreiðslan 43.3% eða 25 1 þús. kr. á gwst. Olíunotkun fyrir hitun íbúða, stofnana og atvinnurekstrarhúsnæðis, sem frv. gerir ráð fyrir, er 328 gwst. á ári. Þetta þýðir að niðurgreiðsla á olíu samkv. 2. gr. frv. nemur á ári 82 millj. kr.

Þá gerir frv. ráð fyrir í 3. gr. að verð olíu. sem hitaveitur nota til framleiðslu rafmagns til upphitunar húsa, skuli greitt niður sem nemi þeirri fjárhæð sem hitunarkostnaðurinn verði sambærilegur og gert er ráð fyrir í 2. gr. frv. Nokkrar hitaveitur, sem nota jarðvarma sem orkugjafa. eru með toppkyndistöðvar sem notaðar eru þegar kaldast er í veðri, þ. á m. hitaveitur Akureyrar, Siglufjarðar, Egilsstaða, Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Auk þess reka Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða kyndistöðvar með olíu sem orkugjafa, svokallaðar R O-kyndistöðvar, á Höfn í Hornafirði, Seyðisfirði, Ísafirði, Bolungarvík og patreksfirði. Þá kemur hér til olíunotkun til framleiðslu rafmagns til húshitunar sem fer eftir árferði og orkuskorti frá vatnsaflsstöðvum. Áætlað er að niðurgreiðsla á olíu til hitaveitna og rafveitna samkv. 3. gr. frv. nemi um 2 millj. kr. á ári.

Enn fremur gerir frv. ráð fyrir samkv. 4. gr. að verð á raforku til húshitunar skuli greitt niður eftir því sem með þarf til þess að hitunarkostnaður verði 10% lægri en kostnaður við kyndingu með niðurgreiddri olíu. Raforka þessi skal greidd niður hvort sem hún er heldur seld til beinnar upphitunar eða sem orkugjafi hitaveitna. Hér er ákvæði til hvatningar mönnum um að taka upp innlendan orkugjafa í stað erlends orkugjafa til húshitunar eða skipta frá olíu til rafhitunar. Verðið á raforkunni til neytenda yrði samkv. þessu ekki hærra en 90% af kostnaði olíukyndingar samkv. 2. gr. eða 29.5 aurar á kwst. Niðurgreiðslan á raforku er aðallega vegna beinnar upphitunar og þó fyrst og fremst þar sem um dýra rafhitun er að ræða. Dýr rafhitun nemur nú um 344 gwst. á ári og er greidd niður samkv. frv. um 28.2 millj. kr. á ári, en meðaldýr rafhitun, sem nemur 57 gwst. á ári, er greidd niður um 1.5 millj. kr. á ári. Til viðbótar þessu kemur svo niðurgreiðsla á raforku til hitaveitna sem nota raforku sem orkugjafa, svokallaðar R O-hitaveitur, og hefur sú niðurgreiðsla verið áætluð að nema 1.6 millj. kr. á ári. Samkv. þessu nemur niðurgreiðsla á raforku á ári samkv. 4. gr. frv. um 31 millj. kr.

Miðað við óbreytt olíuverð og óbreyttar gjaldskrár hitaveitna nema útgjöld samkv. 2., 3. og 4. gr. frv. samtals 115 millj. kr. á ári. Ef hins vegar verð hjá ódýrum hitaveitum yrði hækkað umfram verðlagshækkanir, svo sem óskað er eftir og nauðsynlegt er talið til að tryggja rekstur og viðgang hitaveitnanna, horfir málið öðruvísi við. Ef reiknað væri með að verð hjá ódýrum hitaveitum hækkaði t.d. um 30% mundi heildarniðurgreiðslan samkv. frv. þessu ekki vera 115 millj. kr. á ári, heldur 83 millj. kr. á ári, þ.e. olíuniðurgreiðslan samkv. 2. gr. yrði 6 7 millj. kr. á ári í stað 82 mill j. kr. á ári og niðurgreiðsla á raforku samkv. 4. gr. yrði 14 millj. kr. á ári í stað 31 millj. kr. á ári. Ef stjórnvöld yrðu við eðlilegum kröfum ódýru hitaveitnanna um gjaldskrárhækkanir yrði ekki einungis tryggð betur sú orkunýting, sem hagkvæmust er til upphitunar húsa, eða notkun jarðvarmans, heldur væru og ríkissjóði spöruð umtalsverð útgjöld um leið og stefnt væri að jöfnuði í hitunarkostnaði landsmanna. Viðmiðunarreglan samkv. 2. gr. þessa frv. um jöfnun hitunarkostnaðar felur í sér hvata fyrir stjórnvöld til þess loks að taka af ábyrgð og raunsæi á því úrlausnarefni að koma á jöfnuði milli landsins þegna um hitunarkostnað húsa.

Í frv. er lagt til að ríkissjóður greiði Orkusjóði óafturkræft framlag sem varið skuli til að greiða niður verð á orkugjöfum til upphitunar húsa í landinu. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður verji fjármagni af andvirði orkujöfnunargjalds í þessu skyni. Samkv. lögum nr. 12 frá 1980, um orkujöfnunargjald, er innheimt mikið gjald sem rennur í ríkissjóð og nemur á þessu ári samkv. fjárlögum um 190 millj. kr. Fjármagn þetta er nú að mestu leyti almennur eyðslueyrir ríkissjóðs. Ríkissjóður hefur svo varið fé til niðurgreiðslu á olíu til upphitunar húsa og nemur sá styrkur 30 millj. kr. á fjárlögum ársins 1982. Eftir stendur þá mikið fé í ríkissjóði af þeim skatti sem innheimtur hefur verið undir yfirskini orkujöfnunar. Verður því fé ekki betur varið en til frekari aðgerða til jöfnunar hitunarkostnaðar, svo sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Ber þá að hafa í huga að frv. þetta mælir ekki fyrir um að mismunur á dýrum og ódýrum hitunarkostnaði skuli nema 2.5-földu vegnu meðalverði hjá hitaveitum landsins. Frv. kveður ekki á um að það skuli vera þessi mismunur. Ég bið hv. þm. að taka vel eftir því. En frv. kveður á um að mismunurinn megi ekki vera meiri en þessu nemur. Það mætti orða það svo: Það er sett þak á það óréttlæti og misjöfnuð sem menn ættu að telja óþolandi að yrði meiri. Það gefur auga leið að þörf er frekari jöfnunar, jafnframt því sem fjármagn er fyrir hendi af andvirði orkujöfnunargjaldsins til frekari jöfnunar hitunarkostnaðar en skylt er að ráðstafa samkv. þessu frv. Það fer þá að vilja fjárveitingarvaldsins á hverjum tíma hvað miklum jöfnuði verður náð.

Það skal tekið fram, að í þessu frv. er ekki að finna reglur um með hverjum. hætti olíustyrkjum skuli úthlutað til jöfnunar hitunarkostnaði. Þykir rétt að þetta verði ákveðið í reglugerð. Frv. kveður sérstaklega á um að þess sé gætt að einfalda framkvæmd alla og sporna við misnotkun á þeim rétti sem einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum er veittur.

Í frv. er að finna heimildarákvæði um að veitt sé sérstök fjárhagsleg aðstoð hitaveitum, sem nota jarðvarma sem orkugjafa, þegar um sérstaka rekstrarerfiðleika er að ræða eða við afbrigðilegan vanda er að fást, eins og hjá hitaveitum Suðureyrar, Siglufjarðar, Egilsstaða o.fl. Er þetta til að jafna þann mun sem orkuverð þessara hitaveitna er metið hærra en sem nemur hitunarkostnaði með olíu að frádregnum olíustyrk. Það skal tekið fram, að þetta heimildarákvæði, sem hér er um að ræða, er sams konar og ákvæði um þetta efni í núgildandi lögum.

Ég hef nú farið í eins stuttu máli og mér hefur þótt unnt í að skýra þetta mikilvæga frv. Mér þykir rétt, áður en ég lýk máli mínu, að leggja áherslu á meginbreytingarnar sem í frv. er að finna.

Þar er þá fyrst til að taka, að frv. setur takmörk fyrir því, hvað mismunur á hitunarkostnaði landsmanna má vera mestur.

Í öðru lagi kveður frv. á um reglu um hvað niðurgreiðsla á orkugjöfum til húshitunar skal vera mikil, og þar er tekið mið af hvoru tveggja í senn: verði á olíu og gjaldskrám hitaveitna.

Þriðja meginnýmælið, sem frv. þetta hefur að geyma, er fólgið í því, að verð á dýrustu raforku til húshitunar skal greiða niður hvort heldur er til beinnar upphitunar eða sem orkugjafa hitaveitna. Ekki þarf að taka fram að nú er einungis greidd niður olía.

Fjórða nýmælið, sem mér þykir rétt að vekja athygli á, er að hitunarkostnaður atvinnuhúsnæðis er greiddur niður samkv. frv. jafnt sem hitunarkostnaður íbúðarhúsnæðis. Hér er um að ræða nýmæli. Olía er ekki nú greidd niður að því er viðkemur atvinnuhúsnæði. En það þykir rétt að jafna einnig í þessum efnum sem öðrum varðandi upphitun þannig að atvinnuvegir landsins búi sem mest við álíka kostnað við upphitun húsa hvar sem er á landinu.

Þá vek ég athygli í fimmta lagi á því nýmæli eða ákvæði þessara laga, að ráðstafa skuli andvirði orkujöfnunargjalds á þann veg að það gangi til niðurgreiðslu á orkugjöfum til húshitunar. Sannleikurinn er sá, að þetta virðist vera svo sjálfsagt að ekki hefði þurft að taka slíkt fram. En því miður, eins og ég hef áður vikið að, er staðreynd að hér er um að ræða fjármagn sem hefur verið innheimt með sköttum undir fölsku yfirskini, — undir því yfirskini að það væri verið að bæta misrétti milli þegna þjóðfélagsins í húshitunarmálunum, — en fjármagnið verið gert að eyðslueyri ríkissjóðs.

Í sjötta lagi vil ég vekja athygli á því nýmæli, að gert er ráð fyrir að það fé, sem verður til ráðstöfunar til niður-, greiðslu á orkugjöfum til húshitunar, gangi til Orkusjóðs og Orkusjóður ráðstafi þessu fé samkv. lögum og reglugerðum sem ákveðnar verða. Það er eðlilegt, hvað sem líður því sem verið hefur þegar eingöngu hefur verið um olíustyrki að ræða til einstaklinga, að Orkusjóður komi hér inn í þegar jafnframt er gert ráð fyrir framlagi til orkufyrirtækja. Þykir mér að öll framkvæmd þessara mála verði þá betur samræmd og í fastari skorðum en verða mundi ef einn aðili hefði ekki með þetta verkefni að gera.

Ég vek þá að lokum athygli á sjöunda nýmælinu sem ég hef viljað sérstaklega leggja áherslu á í máli mínu, og það er að þessi mál, sem varða jöfnun hitunarkostnaðar, falli ekki undir viðskrh., eins og nú er samkv. lögum, heldur verði þessi mál í verkahring iðnrh. Ég hygg að það þurfi ekki að fjölyrða um réttmæti þessarar breytingar þó að ég hafi í máli mínu ekki komið fyrr að því en nú.

Ég hef nú lokið við, herra forseti, að gera grein fyrir frv. þessu og leggja áherslu á meginnýjungar þess. Ég vil að lokum minna á að þetta frv. er að stofni til byggt á frv. sem ég ásamt þm. Tómasi Árnasyni, Stefáni Jónssyni og Eiði Guðnasyni flutti á næstsíðasta þingi. Í því frv. var kveðið á um þá viðmiðunarreglu varðandi ákvörðun olíustyrks og þau takmörk fyrir mismun sem gátu verið á upphitunarkostnaði. Þetta, sem stóð í fyrra frv. okkar fjórmenninganna sem ég vitna til, er orðrétt eins í því frv. sem hér er til umr. En á þessum frv. er verulegur munur samt.

Það er í fyrsta lagi, að í hinu fyrra frv. var gert ráð fyrir að einungis olía væri greidd niður sem orkugjafi til upphitunar, en í frv. því, sem við nú leggjum fram, ég og hv. þm. Eiður Guðnason og Egill Jónsson, er gert ráð fyrir niðurgreiðslu einnig á raforku til upphitunar, eins og ég áður tók fram.

Það er enn fremur sá mismunur á þessum frumvörpum, hinu fyrra og þessu síðara sem við nú ræðum, að í hinu fyrra var gert ráð fyrir að kostnaður vegna niðurgreiðslu væri greiddur beint úr ríkissjóði. En frv. það, sem við nú ræðum, gerir ráð fyrir að notað verði það fjármagn sem kemur inn við skattlagningu samkv. lögum um orkujöfnunargjald í þessu skyni, eins og ég hef áður greint frá.

Það eru nokkrar fleiri minni háttar breytingar, kannske sums staðar hnikað til á orðalagi eða minni háttar efnisbreytingar; sem hafa verið gerðar frá hinu fyrra frv. og til þess frv. sem við nú ræðum. Ég sé ekki ástæðu til að fara sérstaklega út í það.

Ég vil aðeins segja það að lokum, að þetta frv. er sannarlega lagt fram í því trausti, að það fái jákvæðar viðtökur og við höldum ekki áfram að tala sífellt um þann vanda sem við er að fást í upphitun húsnæðis, heldur að við látum nú verkin tala.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að leggja til að málinu verði vísað til hv. iðnn.