21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4034 í B-deild Alþingistíðinda. (3580)

286. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. 1. flm. þessa frv., hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánssonar, hefur í framsöguræðu sinni gert ítarlega grein fyrir efnisþáttum þessa máls. Sé ég ekki ástæðu til að bæta þar neinu við,svo ítarlega sem hann rakti alla meginþætti málsins.

Eitt atriði get ég þó ekki látið hjá líða að minnast á. Það er það sem um er fjallað strax í 1. gr. frv., þ.e. að til að mæta þeim kostnaði, sem þarna er gert ráð fyrir, skuli ríkissjóður verja, fjármagni af andvirði orkujöfnunargjalds. Í rauninni er hlálegt að skuli þurfa að taka slíkt fram. vegna þess að nafnið eitt, orkujöfnunargjald, segir til hvers þeim fjármunum skuli varið. Staðreynd er hins vegar og ekki einsdæmi hjá núv. hæstv. ríkisstj. að markaðir tekjustofnar, sem renna eiga til ákveðinna þátta, eru teknir til annarra nota. Þetta höfum við séð í sambandi við húsnæðismál sem hafa verið til umr. að undanförnu í þessari hv. deild, þetta höfum við séð í sambandi við orkujöfnunargjald og þetta höfum við séð í sambandi við ákaflega margt fleira. Þess vegna er það ekkert undarlegt þó að hæstv. fjmrh. geti gumað af góðri afkomu ríkissjóðs þegar hinir merktu tekjustofnar eru teknir hver á eftir öðrum og settir beint í ríkishítina, en þau málefni, sem þessir tekjustofnar voru markaðir, eru látin reka á reiðanum þangað til í fullkomið óefni er komið, eins og er í húsnæðismálum og eins og er nú um þennan málaflokk.

Það er ekki aðeins á einu sviði, sem ríkisstj. hefur orðið ber að því að standa svona að málum, heldur er það á hverju sviðinu á eftir öðru sem slíkt hefur komið upp. Síðan megum við þm. hlusta á það hér og lesa um það í blöðum, hlusta á það í útvarpi og sjónvarpi, að fjmrh. gumar af því í eyru landslýðs, að afkoma ríkissjóðs hafi aldrei verið betri en einmitt um þessar mundir. En skýringanna á góðri afkomu ríkissjóðs er m.a. að leita í þeirri staðreynd, að markaðir tekjustofnar hafa í auknum mæli verið látnir renna beint í ríkissjóð, en ekki til þeirra verkefna sem þeim var upphaflega ætlað.

Varðandi þetta mál í heild er það eitt að segja, að hér er á ferðinni réttlætismál og kannske eitt mesta réttlætismálið sem fram hefur komið á þessu þingi. Við Alþfl.menn höfum flutt hér frv. til l. um leiðréttingar á þessu sama máli, en lagt þar til að farnar væru nokkuð aðrar leiðir, þ.e. upphitunarkostnaður þeirra, sem ekki búa við hagkvæmar hitaveitur, verði gerður frádráttarbær frá skatti. Virðist alveg ljóst að það frv. fær enga náð hjá stjórnarherrunum og því verður ekkert sinnt. Því þótti mér rétt að gerast meðflm. að þessu frv. sem sannarlega fjallar um hið mesta réttlætismál. Raunar fékk hitt frv., sem við fluttum, um jöfnun hitunarkostnaðar, leiði til að létta almenningi þessar þungu byrðar. Það fékk þá einkunn hjá einum af þm., sem styðja núv. hæstv. ríkisstj., að það væri bæði vonlaust og vitlaust, án þess að hirt væri um að rökstyðja það frekar. Þegar þeir ágætu menn tala um að leiðrétta þurfi þetta ranglæti fylgir ekki ákaflega mikill hugur máli.

Ég endurtek að mismunur hitunarkostnaðar þeirra, sem búa við það að þurfa að hita hús sín með olíu, og nú á hinum síðari tímum ekki síður marga þeirra, sem búa við rafmagnshitun, er eitt mesta misrétti sem þekkist í þjóðfélaginu. Ég ætla ekki að fara að þylja hér tölur. Það er búið að segja það hér nægilega oft, og ég hygg að öllum hv. þm. og raunar kannske ráðherrum líka, hafi þeir lagt við hlustir, sé ljóst hvert ranglæti hér ríkir. Hér er, hæstv. fjmrh., um að ræða það ranglæti sem ríkir í húshitunarmálum annars vegar þeirra sem verða að una því að kynda hús sín með dýrri olíu og jafnvel dýru rafmagni líka. Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar, að viðgangist þetta misrétti miklu lengur muni það hafa mjög alvarlegar þjóðfélagslegar afleiðingar, og mun ég koma nánar að því síðar.

Ég átti þess kost í byrjun þessa mánaðar að sækja fund sem samtök sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi gengust fyrir í Stykkishólmi þar sem fjallað var um stöðu þessara mála, einkanlega að því að varðar kauptúnin á norðanverðu Snæfellsnesi. Þar hefur farið fram jarðhitaleit sem því miður hefur ekki borið árangur, og er litlar vonir með núverandi tækni að binda við að þar fáist jákvæð svör. Þess vegna blasir það við íbúum þessara svæða að taka ákvarðanir um hvort leggja skuli fjarvarmaveitur, þ.e. miðstýrt eða miðhitað vatnskerfi, í þessi byggðarlög, hvort taka skuli upp það sem ég vil kalla óbeina rafhitun, þ.e. að hita vatn með raftúbu og hafa síðan vatnskerfi í húsunum, eða í þriðja lagi hvort nota skuli beina rafhitun. Á þessum fundi mættu fjölmargir sérfræðingar, bæði frá Orkustofnun og Rafmagnsveitum ríkisins. Á fundinum var vitnað til bréfs frá hæstv. iðnrh., sem hann skrifaði 1979 og tilkynnti sveitarstjórnum í þéttbýlisstöðum á norðanverðu Snæfellsnesi að það væri ekki eftir neinu að biða með að hefja undirbúning fjarvarmaveitna fyrir þessi þorp. En síðan kom babb í bátinn. Það reyndist nefnilega svo, þegar betur var reiknað, að Rafmagnsveitur ríkisins gátu ekki staðið við það orkuverð sem þær höfðu boðið. Þetta eru auðvitað afar slæm mistök vegna þess að sveitarfélögin höfðu frestað ýmsum framkvæmdum og hagað öðrum framkvæmdum með tilliti til þess, að þarna yrðu lagðar fjarvarmaveitur. Þetta hefur tafið aðgerðir í þessum húshitunarmálum a.m.k. um eitt ef ekki tvö ár. Það, sem á hefur skort í þessum efnum, er að fyrir lægi mörkuð stefna stjórnvalda um að hvers konar kyndingu skyldi stefna.

Nú var það að heyra á forvígismönnum Rafmagnsveitna ríkisins á þessum fundi, sem ég hef áður vitnað til, að að þeirra mati væri hagkvæmast að hafa vatnskerfi í húsunum og hita vatnið með raftúbum. Það er það sem ég vil kalla óbeina rafhitun. Gott og vel. Sé þessi stefna mörkuð og sé það staðreynd, sem menn geti ekki reiknað sig frá, að fjarvarmaveitur séu ekki hagkvæmar verður auðvitað að hlíta því.

En satt best að segja voru þær tölur, sem nefndar voru á þessum fundi í Stykkishólmi um húshitunarkostnað og þann aukaskatt sem með þeim hætti er lagður á íbúa þessara staða, bæði þarna á norðanverðu Snæfellsnesi svo og auðvitað alls staðar annars staðar á landinu þar sem menn verða að una þessu, óhugnanlegar, og enn voru þær mér óhugnanlegri kannske fyrir þá staðreynd, að svo vill til að ég bý á hitaveitusvæði Hitaveitu Reykjavíkur, þar sem verðið á orkunni er langt fyrir neðan það sem raunhæft eða sanngjarnt getur talist vegna þess að stjórnvöld eru í vísitöluleik með afnotagjald Hitaveitunnar. Hún fær ekki að hækka verð fyrir sína þjónustu, fær ekki að taka eðlilegt verð fyrir sína þjónustu, er skikkuð til að selja sína þjónustu undir kostnaðarverði. Allt gerir þetta málið erfiðara, allt skekkir þetta myndina og allt gerir þetta þær tölur fáránlegri sem um er verið að tala hér.

Það hafa verið gerðir ítarlegir útreikningar m.a. um hitunarkostnað húsa á Vestfjörðum. Ég veit að ég þarf ekki að rekja þær tölur hér fyrir þm., þær eru öllum mönnum kunnar, og ég veit líka að hv. þm. þessarar deildar er mætavel ljóst hver aukaskattur er lagður á þetta fólk vegna þess að þegar það kaupir olíuna eða borgar rafmagnsreikningana gerir það það með peningum sem þegar er búið að borga skatt af. Það er kannske óskhyggja, en eina réttlætið í þessu máli er auðvitað að íbúar þessa lands, hvar sem þeir búa á landinu, borgi nokkurn veginn sama orkuverð. Það mælir enginn gegn því, að við skulum öll, hvar sem við erum stödd á landinu, borga sama verð þegar við kaupum bensín eða olíu. Af hverju skyldum við ekki borga sama verð fyrir varma inn í hús? Ef okkur þykir rétt að láta alla sitja við sama borð varðandi þessa orkugjafa, olíur og bensín, hvers vegna á það ekki að ganga jafnt yfir aðra orkugjafa sem eru jafnnauðsynlegir? Ég segi ekki: nauðsynlegri, heldur jafnnauðsynlegir. Það væri litið lif í þessu landi ef þessir orkugjafar væru ekki til.

Ég ætla, herra forseti, ekki að tala langt mál um þetta. Það var sagt í frægri ræðu og oft vitnað til, þó að þau orð væru raunar ekki uppfinning flytjandans, að vilji sé allt sem þarf. Það gildir ekki síst um þetta mál. Mig undrar að ekki skuli vera hægt að samstilla pólitískan vilja til að leiðrétta þetta hróplega ranglæti sem allt of lengi hefur viðgengist. Hvaða ályktun ber að draga af því, að ekkert skuli hafa gerst? Það er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá, að viljinn sé ekki fyrir hendi. Ég geri mér fyllilega ljóst að þessi leiðrétting á sér ekki stað í einu skrefi. Til þess er munurinn allt of mikill. Þetta verður að gerast á nokkrum tíma og í nokkrum skrefum — og það verður að gerast. Ef það gerist ekki, og þá kem ég að því sem ég minntist á stuttlega fyrr, held ég að það hafi meiri og alvarlegri þjóðfélagslegar afleiðingar en menn eiga kannske auðvelt með að gera sér í hugarlund á þessari stundu. Þetta mun nefnilega hafa þær afleiðingar, að fólk muni í vaxandi mæli flytja frá hitadýru stöðunum á hina ódýrari staði, t.d. á höfuðborgarsvæðið. Þær þjóðfélagslegu breytingar verða okkur dýrar og ég held að það dæmi hafi aldrei verið reiknað. Við skulum segja sem svo: Ef flyttu á ári 10% af íbúum þeirra 10 staða, sem búa við hæstan hitunarkostnað, hingað á Reykjavíkursvæðið, hvað mundi það kosta þjóðfélagið? Ég er sannfærður um að það kostar þjóðfélagið kannske hundraðfalda þá upphæð sem það kostar að samþykkja þetta frv. eða samþykkja það frv. sem við Alþfl.-þm. höfum lagt fram um að gera hitunarkostnað frádráttarbæran frá skatti. Þetta verða menn auðvitað að hafa í huga. Ég held að menn hafi alls ekki hugað nægilega vel að þessari hlið málsins.

Ég ætla, herra forseti, ekki að hafa þessi orð fleiri, en ég vona að ítrekaðar tilraunir okkar, sem stöndum að þessu frv., eigi eftir að bera árangur, og ég vona sömuleiðis, að það geti orðið fyrr en seinna, því vilji er allt sem þarf.