21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4040 í B-deild Alþingistíðinda. (3582)

286. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Það er oft sem frsm. þakkar fyrir undirtektir undir það mál sem hann hefur flutt, og ég verð að gera það hér. En það skal tekið fram, að annar þeirra tveggja ræðumanna, sem talaði á eftir mér er meðflm. minn, hv. þm. Eiður Guðnason, þannig að við öðru var ekki að búast af honum, enda var líka hans framlag í þessum umr. hið markverðasta.

En ég vil einnig þakka hv. síðasta ræðumanni, hv. 5. þm. Norðurl. e., fyrir það sem ég kalla góðar undirtektir undir frv. það sem ég hef hér mælt fyrir. Það kom ekkert fram í ræðu þessa hv. þm. sem túlka má sem andmæli eða beina gagnrýni eða nokkra gagnrýni á því frv. sem hér hefur verið lagt fram, og raunar kemur mér það ekki á óvart. Ég hef kynnst náið skoðunum þessa hv. þm. í þessum málum. Eins og kom fram í ræðu hans höfum við báðir verið í nefnd sem unnið hefur að athugun þessara mála og skipuð var á s.l. sumri, í júlímánuði, af hæstv. viðskrh. Ég hef verið liðsmaður í þessari nefnd, en hv. 5. þm. Norðurl. e. hefur verið formaður nefndarinnar.

Ég segi eins og hv. þm., að ég ætla ekki að fara að ræða allt það sem þessi nefnd hefur nú gengið frá. Það var reyndar í dag sem gengið var frá því áliti, og verður það sent hæstv. viðskrh. svo ég skal ekki frekar en hv. 5. þm. Norðurl. e. fara að ræða þetta álit. En ég bara ítreka það, sem lá í mínum fyrstu orðum, að ég tel að það sé stuðningur í þeirri athugun, sem nefndin hafði með höndum og lýst er í skýrslu hennar, — beinn stuðningur við þetta frv. sem hér hefur verið lagt fram.

Þetta er heldur ekkert óeðlilegt í sjálfu sér þegar þess er minnst, að þegar núverandi löggjöf um þessi mál — lög um jöfnun og niðurgreiðslu hitunarkostnaðar-var samþykkt á síðustu dögum þings vorið 1980 var gert ráð fyrir, eins og fram kom í nál. hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar, að fljótlega yrði þessi löggjöf endurskoðuð. Í nál. var talað um að ætlast væri til að tekið vær í mið af frv. sem ég flutti ásamt þremur öðrum hv. þm. á því þingi, þinginu 1979–80, og ég vék lítillega að í frumræðu minni. Ég benti áðan á að frv. það, sem við nú ræðum, væri byggt á þeim grunni sem lagður var í frv. frá 1980. Það var gott frv. og það var traustur grunnur. Auk mín voru flm. þess hæstv. núv. viðskrh. Tómas Árnason, og hv. þm. Stefán Jónsson og Eiður Guðnason.

Með tilliti til þess, að allt frá því 1980 hefur legið í loftinu að núgildandi löggjöf um þetta efni væri endurskoðuð og sett ný og betri, og með tilliti til þess, hvers eðlis þetta frv. er og hver saga þess er, eins og ég hef rakið nú í örfáum orðum, vildi ég mega vænta þess, að það væri almennur stuðningur við þetta frv. þannig að það gæti orðið að lögum áður en þessu þingi lýkur. Mér dettur að vísu ekki í hug að segja sem svo, að það megi engu breyta ef mönnum sýnist að eitthvað geti betur farið í þessu frv. En ég held að það sé naumast hægt að mæla gegn því að grunni til þar sem það er í samræmi við það sem hefur verið talað um af öllum talsmönnum allra.stjórnmálaflokka hér í þinginu að ætti að stefna að og með beinni tilvitnun í frv. frá 1980.

Nú langar mig að spyrja hæstv. viðskrh. hvort ekki megi vænta jákvæðra viðbragða af hans hálfu gagnvart þessu frv., þannig að við mundum nú halda áfram því starfi sem við hófum þegar við stóðum saman að frv. frá 1980. Og ég spyr hvort þess megi ekki vænta, að hann leggi sitt lóð á vogarskálarnar til þess að þetta frv. nái fram að ganga óbreytt eða þá með breytingu sem kynni að vera nauðsynlegt að gera, því að mér sýnist eins og málum er komið að þetta sé eina leiðin til að fá eitthvað gert á þessu þingi í málinu. Ég hef gengið út frá því, að við værum allir, hv. þm. og hæstv. viðskrh., sem þetta mál heyrir undir, og ríkisstj. í heild, sammála um að það þurfi að gera eitthvað, að það þurfi að vinna að þessum mátum eftir þeim stefnumiðum sem lögð eru til grundvallar í þessu frv. Og raunar höfum við verið að tala um það allan tímann þegar þessi mál hefur borið á góma á Alþingi frá því 1980.