21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4045 í B-deild Alþingistíðinda. (3587)

286. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég vil gjarnan láta það koma fram í þessum umr., að hv. 4. þm. Vestf. hefur unnið mikið og gott starf í þessu máli. Hann hefur minnt á að við unnum saman að undirbúningi frv. hér á sínum tíma, og hann hefur verið mikill áhugamaður, eins og margir fleiri, um þessi upphitunarmál, sem vissulega eru hin alvarlegustu mál og varða mjög miklu afkomu fólks sem býr við óhagstæð skilyrði að þessu leyti. Ég get verið honum sammála um að frv., sem hann hefur lagt fram nú ásamt fleiri, er innlegg í þetta mál. Þar koma fram ýmsar gagnlegar upplýsingar sem koma að notum þegar málið er undirbúið til endanlegs frv.-flutnings. Ég get mjög vel unnt honum þess, að hann hefur unnið vel að þessu máli, á sinn þátt í því ásamt fleiri nefndarmönnum í nefndinni, sem ég skipaði, að hún sendi frá sér sameiginlegt nál. sem ég álit að sé mjög mikils virði fyrir framgang málsins þó á síðara stigi verði.