21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4047 í B-deild Alþingistíðinda. (3591)

168. mál, dýralæknar

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta til laga um dýralækna er samið af nefnd sem skipuð var með bréfi 1. júlí 1981. Fékk nefndin það hlutverk að endurskoða gildandi lög nr. 31/1970, um dýralækna, ásamt þeim breytingum sem á þeim lögum hafa verið gerðar.

Nefndarskipun þessi var gerð í samræmi við yfirlýsingu sem ég gaf við umræður um þingmannafrv. um þessi mál hér á hv. Alþingi fyrir um það bil einu ári. Samdi nefndin það frv. sem hér var lagt fram á hv. Alþingi í Nd. Var það lagt þar fram óbreytt eins og nefndin gekk frá því. Hv. Nd. hefur gert á frv. ýmsar breytingar og varð samkomulag um þær við nefndina, sem vann að samningu frv., og einnig lýsti ég samþykki við þær breytingar.

Nefndin, sem vann að þessu verki, var skipuð þeim Páli Agnari Pálssyni yfirdýralækni, Jóni Guðbrandssyni héraðsdýralækni, formanni Dýralæknafélags Íslands, og frú Ragnheiði Árnadóttur deildarstjóra í landbrn. Var hún jafnframt skipuð formaður nefndarinnar.

Enda þótt lög um dýralækna séu ekki nema 11 ára gömul hafa verið gerðar á þeim breytingar hvað eftir annað eða alls sjö sinnum. Flestar breytingarnar varða dýralæknaskipan. Hafa þær oftast verið til komnar vegna óska eða tilmæla bændasamtaka um fleiri héraðsdýralækna og betri þjónustu. Á síðustu árum hafa borist óskir um ný dýralæknaembætti og skiptingu héraðsdýralæknaumdæma: Hafa óskir borist um allt að sex ný héraðsdýralæknaumdæmi.

Í frv. þessu er meginbreytingin einmitt á þessu sviði, þ.e. á umdæmaskiptingu héraðsdýralækna í landinu. Samkv. frv. er gert ráð fyrir að stofnuð verði sex ný héraðsdýralæknisumdæmi. Þessi nýju umdæmi eru þannig, að Gullbringu- og Kjósarsýsluumdæmi er skipt í tvennt og tekin tvö umdæmi, þ.e. Reykjavíkurumdæmi og Hafnarfjarðarumdæmi. Borgarfjarðarumdæmi er einnig skipt í tvennt og tekið þar upp nýtt umdæmi, Akranesumdæmi. Skagafjarðarumdæmi er skipt í tvennt og tekið upp nýtt umdæmi, Hofsósumdæmi. Þá er Þingeyjarumdæmi skipt í tvennt og verður þar um tvö umdæmi að ræða, Þingeyjarumdæmi vestra og Þingeyjarumdæmi eystra. Austurlandsumdæmi nyrðra verði skipt í tvennt og þar tekin upp Austurlandskjördæmi nyrðra og Norðfjarðarumdæmi. Laugarásumdæmi er skipt í tvennt og tekið upp nýtt umdæmi, Hreppaumdæmi.

Þetta eru sem sagt sex ný héraðsdýralæknisumdæmi sem lagt er til að stofnuð verði.

Í frv. er gert ráð fyrir að skipting héraðsdýralæknisumdæma samkv. þessari grein komi til framkvæmda eftir því sem landbrh. ákveður og fjárveiting segir til um. Fram að þeim tíma að ný héraðsdýralæknisembætti verða veitt gilda eldri lög um skiptingu landsins í héraðsdýralæknisumdæmi, lög nr. 77/1981.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir að landbrh. ákveði hvar héraðadýralæknar skuli hafa aðsetur og starfsaðstöðu. Samkv. þeim breytingum, sem urðu í meðförum hv. Nd„ er gert ráð fyrir að það verði gert að fengnum tillögum yfirdýralæknis, stjórnar Dýralæknafélags Íslands og viðkomandi búnaðarsambands.

Frv. gerir ráð fyrir því, að heimilt verði að tveir héraðsdýralæknar sitji á sama stað, ef það má verða til þess að koma við meiri verkaskiptingu þeirra í milli, þannig að þjónusta þeirra geti gengið greiðar fyrir sig og þannig orðið til hagræðis.

Í frv. er það nýmæli að heimilt verði að greiða kostnað við ferðalög dýralæknis sem er umfram 40 km vegalengd frá heimili hans. Er þá gert ráð fyrir að ríkið greiði ferðakostnað, sem er umfram 40 km akstur frá heimili dýralæknis, en landbrh. setji reglur um framkvæmd á ákvæðum þeirrar greinar.

Það frv., sem hér er á dagskrá, er að meginstofni auðvitað byggt á eldri lögum. Ýmsar greinar þess eru að miklu leyti óbreyttar að efni til frá því sem gildandi lög segja til um, þó að þar sé á ýmsan hátt um orðalagsbreytingar að ræða og einnig nokkrar efnisbreytingar.

Frv. gerir ráð fyrir að lagaákvæði um dýralækna skarist nokkuð við aðra lagabálka. Það er þó fyrst og fremst varðandi lögin um lyfjadreifingu. Er gert ráð fyrir því samkv. frv., að dýralæknir hafi heimild til þess að annast sölu dýralyfja, en ekki sé nauðsynlegt að sala á dýralyfjum fari öll fram í lyfjabúðum. Væri horfið að því ráði mundi það væntanlega hafa í för með sér nokkuð aukin umsvif og erfiðleika fyrir þá sem þurfa að sækja sér dýralyf, því það mundi leiða.til þess, að héraðsdýralæknir mundi þurfa að skrifa lyfseðla og síðan yrði að sækja lyfin í lyfjabúð. En stundum vill svo til, ekki síður en hjá mannfólkinu, að dýr veikjast með snöggum hætti. Er þá oft auðveldara að ná til dýralæknis, sem hefur lyf í fórum sínum, heldur en til lyfjabúðar sem hefur fastan afgreiðslutíma og takmarkaðri en þjónusta héraðsdýralækna er við miðuð.

Einnig skarast frv. nokkuð við lög um hollustuvernd. Urðu nokkrar umr. um þá skörun í meðförum hv. landbn. Nd. Komu fram óskir og athugasamdir frá starfsmönnum sem vinna á vegum stofnana heilbrmrn., en það tókst að ná samkomulagi um þau atriði þannig að ég vænti að sæmilega megi við una.

Varðandi þetta mál að öðru leyti geri ég ráð fyrir því, ef frv. verður afgreitt, að á þessu ári verði veitt eitt eða tvö ný dýralæknisembætti. Mun verða leitað umsagnar yfirdýralæknis og stjórnar Dýralæknafélags Íslands um það, hvar mest þörf sé á að stofna ný umdæmi eins og nú standa sakir, en að öðru leyti er ráðgert, svo sem frv. ber með sér, að ákvæði frv. taki gildi smám saman. Er það heppilegt bæði með tilliti til þess fjármagns, sem það kostar að setja upp ný embætti af þessu tagi, og einnig með tilliti til þess mannafla sem ráð er á til að sinna þessum störfum.

Það er vitaskuld tilgangur laga um þetta efni að gera ramma um þessa starfsemi. Sá rammi þarf að vera þannig úr garði gerður að hann leiði til sem mestrar hagkvæmni í þessari þjónustu, en greiði þó fyrir því, að þjónusta sé veitt með eins greiðum hætti og föng eru á. Ég hygg að yfirleitt hafi svo tekist til. Og það er auðvitað tilgangur frv. að leitast við að greiða fyrir því, að sú þjónusta, sem hér er um að tefla, verði sem hagkvæmust og liprust.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta frv. hér lengri framsögu. Ég vonast eftir því, að frv. geti hlotið afgreiðslu hv. Ed. og þar með Alþingis á þessu vori. Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.