21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4049 í B-deild Alþingistíðinda. (3592)

168. mál, dýralæknar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þar sem mér mun gefast tækifæri til að fjalla um þetta mál í nefnd nú á næstu dögum mun ég ekki hafa um það mjög mörg orð. Engu að síður finnst mér hér vera að vissu leyti um nokkra meginspurningu að ræða varðandi þetta frv. og kannske þann skamma tíma sem lifir þings, að því er okkur þm. er tjáð. Ég læt í ljós nokkurn efa um að takast muni að afgreiða þetta mál. Fyrir því vil ég færa eftirfarandi rök:

Það er ljóst að miklar breytingar hafa verið gerðar á frv. í Nd. Engu að síður er ég þeirrar skoðunar, að eins og þetta frv. er núna geti Alþingi ekki af ýmsum ástæðum afgreitt það í þessari mynd. Ég skal ekki vera langorður. Ég ætla bara að telja upp nokkrar ástæður, vegna þess að ég tel alveg ástæðulaust að löggjafarsamkunda þjóðarinnar geri sig að athlægi með því að afgreiða atriði eins og þau eru orðuð hér.

Það er þá í fyrsta lagi í 3. gr., með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur: „Landbrh. getur veitt mönnum, sem ekki eru íslenskir ríkisborgarar, tímabundið lækningaleyfi“ o.s.frv. „og hafi að dómi yfirdýralæknis nægilega kunnáttu í töluðu og rituðu íslensku máli.“ Ég álít að yfirdýralæknir eigi ekki að vera og geti ekki verið prófdómari um íslenskukunnáttu erlendra manna sem hér vilja leita eftir störfum. Það mun að vísu hafa gerst hér þegar Schierbeck sótti fyrst um landlæknisembættið, að hann var felldur á íslenskuprófi, en náði því svo aftur seinna þegar hann fékk hagstæðari prófdómara.

Í öðru lagi er í II. kafla þannig tekið til orða um skyldur yfirdýralæknis: „Honum ber að fylgjast með heilsufari húsdýra í viðskiptalöndum Íslands svo sem við verður komið.“ Mér finnst þetta svolítið andkannalegt orðalag, og ég satt best að segja sé ekki hver ástæða er til að taka þetta hér fram.

Sama máli gegnir raunar um 7. gr. alla, sem er upptalning á því sem sjálfsagt er og eðlilegt. Þar stendur t.d., með leyfi forseta: „Dýralæknar skulu forðast að baka dýraeigendum óþarfan kostnað, svo sem með óhóflegri lyfjanotkun, óþörfum vitjunum eða aðgerðum.“ Þarf að binda slíkt í lög? Þarf að binda það í lög að héraðsdýralækni sé skylt að svara spurningum í síma ef til hans er hringt? Það má vel vera að menn telji það nauðsynlegt, en ég tel þetta afskaplega afkáralega lagasetningu, ég verð að segja það alveg eins og er.

Í þriðja lagi segir í 16. gr.: „Dýralækni eru óheimilar hvers konar auglýsingar eða áróður um starf sitt sem dýralæknir. Þó er honum heimilt að auglýsa í blöðum, viðtalstíma, læknavakt, orlof o.s.frv. sem og birta nafn dýralæknis á lyfseðlum og dyraspjöldum.“ Á þetta að vera löggjafaratriði? Þetta finnst mér gjörsamlega út í hött og fáránlegt.

Þá vil ég víkja aðeins að 18. gr. og raunar 19. gr.líka. Þar eru atriði bundin í lög sem eru hrein kjarasamningaatriði dýralækna og vinnuveitanda þeirra, þ.e. ríkisins. Þessi atriði eiga að mínu mati ekkert erindi í löggjöf. Þetta eru atriði sem á að binda í kjarasamningum eins og gert er um aðra. T.d. segir hér, með leyfi forseta: „Þegar dýralæknir hefur starf sem héraðsdýralæknir er heimilt að veita honum hagkvæmt lán til kaupa á bifreið við starf sitt, enda skuldbindi hann sig til þess að starfa sem héraðsdýralæknir næstu þrjú ár.“ Hvað þýða orðin „hagkvæmt lán“ í þessu tilviki? Þetta er gjörsamlega út í hött, að mér finnst. Og í síðasta lagi, svo ég tefji ekki þessar umr. öllu lengur, segir í 19. gr.: „Þegar dýralæknir er kvaddur til vitjana á eigin farkosti á fleiri en einn stað í sömu akstursleið ber honum að aka sem beinasta og greiðasta leið til þeirra. sem vitjana hafa óskað.“ Þarf þetta að vera löggjafaratriði?

Ég held að við hv. þm. verðum aðeins að athuga okkar gang áður en við samþykkjum þetta, vegna þess að ég teldi það beinlínis til minnkunar fyrir okkur alla ef svona lagað fer hér athugasemdalaust í gegn. Þá er hægt að kalla Alþingi afgreiðslustofnun. Ég tel mér skylt að láta þessar athugasemdir koma hér fram.

Ég hef ýmsar fleiri athugasemdir við þetta fram að færa. Ég er ekki að gera ágreining um það sem landbrh. e.t.v. telur meginefni þessa frv., ekki á þessu stigi, en ég verð því miður að segja það sem mína skoðun, að mér finnst þetta þess eðlis að því verði að breyta.