21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4050 í B-deild Alþingistíðinda. (3593)

168. mál, dýralæknar

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. hefur gert nokkrar athugasemdir við þetta frv., sem aðallega fjalla um orðalag, eða hversu frv. og lög um þetta efni skuli vera ítarleg. Ég tel að þær athugasemdir séu ekki veigamiklar. Ég vil t.d. taka fram varðandi athugasemd hv. þm. um það, að yfirdýralæknir skuli fylgjast með heilsufari húsdýra í viðskiptalöndum Íslands svo sem við verður komið, að auðvitað má lengi deila um orðalag. En þetta atriði er ákaflega mikilvægt. Okkur er auðvitað kunnugt einmitt á þessum dögum og vikum að það geisar alvarlegur gin- og klaufaveikifaraldur í Danmörku, á Fjóni. Það ætti að minna okkur á að það er ákaflega mikilvægt og nauðsynlegt að yfirdýralæknir fylgist með öllum slíkum málum. Það kemur oft upp veiki í dýrum erlendis sem ekki eru eins mikið fréttaefni og þessi alvarlegi faraldur. Ég held að það sé mjög mikilvægt atriði að um það séu ákvæði í lögum, að með þessu sé fylgst af hálfu okkar Íslendinga svo sem kostur er. Og það er eðlilegt að það sé hlutverk yfirdýralæknis.

Gerð var athugasemd við að yfirdýralæknir sé ekki þann veg í stakk búinn að eðlilegt sé að hann sé dómari um kunnáttu manna í íslensku máli þegar útlendingar sækja hér um dýralæknaleyfi. Það má vel vera, að það væri hægt að fá sérfræðinga sem hefðu meiri kunnáttu um það efni en yfirdýralæknir hver sem hann er á hverjum tíma. Hitt er annað mál, að við höfum þennan opinbera starfsmann til þess að sinna tilteknum atriðum varðandi framkvæmd þessara laga. Og ég get fullyrt það, að a.m.k. núv. yfirdýralæknir hafi fullnægjandi kunnáttu til þess að skera úr um það, hvort erlendur maður, sem hér sækir um dýralæknaleyfi, hafi þá kunnáttu á íslensku máli að hann geti sæmilega gert sig skiljanlegan við þá sem hann þarf að hafa skipti. við. Og það er það sem máli skiptir í þessu efni. Við vitum það, að ef erlendur dýralæknir starfar hér og kann ekkert í íslensku m áli, þá er honum ekki kleift að veita í öllum tilvikum þá þjónustu sem hann er kostaður til. Þess vegna er þetta ákvæði sett inn í frv.

Hv. þm. taldi að orðalag t.a.m. í 7. gr. væri óþarflega ítarlegt. Þetta má allt vel vera og væri unnt að fella sumt af slíku inn í reglugerð. En frv. er samið af stjórnskipaðri nefnd og frv. er lagt fram nákvæmlega eins og nefndin gekk frá því. Ég taldi eðlilegt að viðhafa þau vinnubrögð og taldi eðlilegt að Alþingi fjallaði um frv. eins og það kom frá nefndinni og hefði tækifæri til að gera þær athugasemdir og breytingar sem þætti við þurfa.

Ég tel að þau atriði, sem hér eru talin, svo sem að dýralæknar skuli forðast að baka dýraeigendum óþarfakostnað eða að héraðsdýralækni sé skylt að svara fyrirspurnum í síma og veita upplýsingar, séu engum til meins þó í löggjöf séu og löggjöfin a.m.k. rýrni ekki að gildi við að þessi ákvæði séu höfð þar, enda þótt það geti verið álitamál, hvort ekki hefði verið nægilegt að hafa slík ákvæði í reglugerð.

Nokkrar fleiri athugasemdir hv. þm. voru í svipaða átt. Ég vil þó aðeins minnast hér á eina af þessum athugasemdum, en sú varðar 18. gr., þar sem segir: „Þegar dýralæknir hefur starf sem héraðsdýralæknir er heimilt að veita honum hagkvæmt lán til kaupa á bifreið við starf sitt“ o.s.frv. og enn fremur í næstu mgr., að gert er ráð fyrir sérstakri fjárhæð á fjárlögum í þessu skyni og að landbrh. setji reglur um fjárreiður þessa sjóðs.

Ég tel rétt að fram komi að á þessi ákvæði, sem staðið hafa lengi í lögum um dýralækna, hefur aldrei reynt. Það hefur aldrei komið til þess, að héraðsdýralækni hafi verið veitt lán samkvæmt þessari grein sem er í gildandi lögum. Og ég veit ekki til þess, að það hafi verið gert ráð fyrir fé í þessu skyni á fjárlögum ríkisins. Það eru því í sjálfu sér mjög litlar líkur til að þessar málsgr. í 18. gr. hafi gildi eða að þetta leiði til þess að héraðsdýralæknum verði veitt slík lán. En nefndin, sem vann að samningu frv., taldi rétt og skaðlaust að þessi ákvæði væru áfram í lögum. Ég fyrir mitt leyti mundi ekki gera nemar sérstakar athugasemdir við, þó að þessi ákvæði væru felld niður, ef það yrði ekki til þess að tefja um of fyrir afgreiðslu þessa máls. Þessi atriði koma vitaskuld til kasta þeirra hv. þingnefndar sem fær þetta mál. Ég veit að það er auðvitað nokkuð skammur tími eftir til þess að fjalla um frv. Um frv. hefur verið fjallað mjög ítarlega í hv. landbrn. Nd., eins og sannast af því að það hafa komið fram mjög margar brtt., sem hafa kostað verulega vinnu að ná samkomulagi um við alla þá aðila sem þar hafa þurft að eiga hlut að.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Ég tel að þó að frv, væri afgreitt eins og það liggur fyrir, þá væri fjarri því að Alþingi yrði að athlægi af þeim sökum.