21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4051 í B-deild Alþingistíðinda. (3594)

168. mál, dýralæknar

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. gat um það áðan að þessi lög sköruðust við önnur. Það er laukrétt. Ég vil minna á að í V. kafla lyfjalaga, sem fjallar um framleiðslu lyfja, standa þessi orð:

„Lyfjagerðir skulu framleiða stöðluð forskriftarlyf og sérlyf, sbr. 7. gr. 1.–2. tölul. Ráðherra gefur út starfsleyfi til lyfjafyrirtækja þeirra sem getur í 1. málsgr. Er óheimilt að hefja rekstur slíkra fyrirtækja fyrr en leyfi hefur verið gefið út. Til þess að fá starfsleyfi verður lyfjafyrirtæki, sbr. 1. málsgr., að fullnægja eftirtöldum skilyrðum.“ Og þá kem ég að þeim lið sem ég ætlaði að vitna til: „1. Að vera undir tæknilegri stjórn manns, sem veita mætti lyfsöluleyfi, enda gegni hann fullu starfi við fyrirtækið.“

Þar sem stendur:„tæknilegri stjórn manns, sem veita mætti lyfsöluleyfi“ er átt við lyfjafræðing. Nú er það þannig að í þessu frv. um dýralækna stendur í 10. gr.: „Tilraunastöð háskólans í meinafræði að Keldum selur og framleiðir undir stjórn sérmenntaðs dýralæknis ónæmislyf handa húsdýrum“ o.s.frv. Ég les ekki lengra, það er óþarfi. Sú grein, sem hér um ræðir, byggist raunar á undanþáguákvæðum sem eru í frv. til breytinga á lyfjalögum sem ekki hefur náð fram að ganga enn. Þetta er því ekki í gildi samkv. orðanna hljóðan fyrr en það frv. hefur náð fram hér í þinginu.

Ég vildi aðeins benda á þetta, ekki síst vegna þess að ég á sæti í heilbr.- og trn. Ed. og við höfum þar verið að fjalla um þessi mál, m.a. vegna Keldna. Það virðist svo sem þar sé einhver togstreita milli ráðandi afla innan ríkisgeirans, hvernig fyrir skuli koma þeim málum: Ég vildi aðeins benda á þetta, að í dýralæknafrv. er um að ræða grein sem á sér ekki stoð nema því aðeins að breyting á lyfjalögunum nái fram að ganga.