21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4052 í B-deild Alþingistíðinda. (3595)

168. mál, dýralæknar

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. Davíð Aðalsteinsson hefur vakið hér athygli á einu atriði í þessu frv. sem skarast við önnur lög, þ.e. lyfjalög. Ég bendi á að hér er gert ráð fyrir að Lyfjaeftirlit ríkisins hafi eftirlit með þeirri starfsemi sem hér er um rætt, þ.e. framleiðslu Tilraunastöðvar háskólans í meinafræði á dýralyfjum. Það er einnig álit mitt og þeirra sem um þetta hafa fjallað, að þrátt fyrir það sem lög um lyfjaframleiðslu segja, þá taki þau lög ekki af þau ákvæði sem hér eru í 10. gr. og eru mjög sambærileg við það sem stendur í gildandi dýralæknalögum um þetta efni: Það færi hins vegar auðvitað vel á því, að samræmi væri í löggjöf sem snertir sambærilega þætti, og væri óskandi að Alþingi gæti staðið svo að málum að það þyrfti ekki að valda erfiðleikum eða ágreiningi.

Ég tel sem sagt að önnur lög taki ekki af þau ákvæði sem hér eru og fjalla um þá starfsemi sem fram fer í Tilraunastöð háskólans á Keldum í lyfjaframleiðslu og einvörðungu er varðandi þann þátt lyfjafræðinnar sem snertir dýralyf og hefur gefið góða raun og verið stórmerk starfsemi. Ég vona að það verði ekki farið að flækja þá starfsemi með of mikilli yfirstjórn og allt of miklum kostnaði. Ég hygg að það væri heppilegra og betra og ódýrara að sú starfsemi fái að vera í friði nokkurn veginn í því horfi sem verið hefur til þessa og verði svo framvegis.