05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

41. mál, tölvustýrð sneiðmyndatæki

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við það mál sem hér er til umr.

Það er alveg ljóst, að gert hafa verið mistök í sambandi við kaup á sneiðmyndatækinu, en það þýðir ekki að tala um það sem orðið er.

Ég vil benda á eitt lítið atriði í sambandi við þetta sem skiptir í raun og veru meginmáli. Það er ekki aðeins tækið, sem hér er verið að fjalla um, heldur starfslið sem þarf til að reka þessi tæki svo að öruggt sé bæði fyrir sjúklingana og raunar kerfið í heild. Þar held ég að við komum að kjarna málsins. Við þurfum að eiga sérstaklega sérfræðinga í meðferð þessara tækja og sérmenntað hjúkrunarlið.

Það kom í hug mér áðan, þegar ég var að hlusta á þessar umr., að á fundi í fjvn. í morgun var stjórnarnefnd ríkisspítalanna. Þessi stjórnarnefnd, sem hefur unnið gífurlega mikið verk á undanförnum árum og reynt að samræma rekstur ríkisspítalanna, kom á fund fjvn. með kröfur um margar millj. kr. sem vantar upp á að hægt sé að reka spítalana á næsta ári til viðbótar því sem er í fjárlagafrv. Þeir gerðu grein fyrir þessu á ýmsan hátt. Ég er hræddur um að það væri þörf lexía fyrir hv. alþm. að kynna sér betur hvað hér er um að ræða. Stjórnarnefndin er sett upp við vegg, sett í þann vanda að taka til meðferðar ýmsan rekstur í spítalakerfinu sem horfir til framfara, en það gleymist oft að til þess þarf peninga. Við, sem sitjum á Alþingi, hljótum að verða að átta okkur á að þegar verið er að ræða um meiri tækni í heilbrigðiskerfinu, sem er dýrasta kerfið sem við búum við á Íslandi, þarf að taka mið af því fjármagni sem við höfum yfir að ráða. Þá er nauðsynin enn þá meiri en nokkurn tíma áður að samræma þennan rekstur og ekki síst að koma á faglegu samstarfi þeirra sem eiga að stjórna þessum rekstri.