21.04.1982
Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4058 í B-deild Alþingistíðinda. (3612)

58. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Frsm. 2. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég hafði fjarvistarleyfi þegar 2. umr. um mál þetta fór fram og átti því ekki kost á að mæla fyrir nál. sem ég flutti um það á þskj. 500. Í því kemur það m.a. fram, að þegar þessi skattur var lagður á í fyrsta sinn árið 1978 var hann hugsaður sem liður í tímabundnum ráðstöfunum þáv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Skattinum var því af hálfu þeirra, sem hann lögðu á, aldrei ætlað að standa í lögum nema mjög skamman tíma, enda er miklu meira en vafasamt að skattur af þessu tagi geti átt rétt á sér nema sem mjög tímabundin ráðstöfun vegna ýmissa augljósra galla á framkvæmd skattheimtunnar, mismununar sem honum fylgir og hvers kyns annarra vafaatriða. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að sem frambúðarúrræði í skattamálum er skattheimta af þessu tagi því meira en óæskileg.

Þótt skatturinn frá árinu 1978 hafi aðeins verið framlengdur til eins árs í senn er hann þó smátt og smátt að festast í sessi sem varanlegur tekjustofn fyrir ríkissjóð. Er sú þróun óæskileg, en samt sem áður þróun sem verið hefur að gerast á undanförnum árum, að tekjuleiðir, sem upphaflega hafa verið hugsaðar sem tímabundin bráðabirgðafjáröflun, hafa verið festar í sessi smátt og smátt sem varanlegur tekjustofn ríkissjóðs.

M.a. vegna þess, að þm. Alþfl. áttu á sínum tíma hlut að því að leiða þennan skatt í lög sem tímabundið úrræði til aðeins eins árs til fjáröflunar vegna sérstakra efnahagsúrræða haustið 1979, hafa þeir á umliðnum árum fallist á tilmæli um tímabundna framlengingu skattsins sem átt hefur sér stað tvívegis síðan. En eins og að framan segir er það skoðun okkar í þingflokki Alþfl., að mjög varhugavert sé að festa slíka einkennandi skammtímafjáröflunaraðferð í sessi, en í þá átt stefnir nú. Rétt fyrir jólin, við afgreiðslu fjárlaga, tók þingflokkur Alþfl. því þá afstöðu, að tímabært væri að stöðva þessa þróun. Í samræmi við það flutti þingflokkur Alþfl. við afgreiðslu síðustu fjárlaga till. um að tekjuspá í fjárl. samkv. þessum skatti yrði lækkuð um helming. Sú till. okkar mætti skilningi hjá forsvarsmönnum Framsfl., en þeir töldu ekki tímabært að taka afstöðu til málsins við afgreiðslu fjárlaga þar sem það þyrfti ekki að taka ákvörðun um framlengingu skattsins fyrr en nú í vor. Nú er hins vegar sá tími kominn og þá þótti okkur rétt að láta reyna á afstöðu þm. Framsfl. til að afnema þennan bráðabirgðaskatt í áföngum á tveimur árum. Tillaga um að lækka þessa skattheimtu um helming, sem samþykkt var af þingflokki Alþfl. að ég flytti við 2. umr. málsins, var hins vegar felld þá með atkv. þm. Framsfl. Hefði sú till. verið samþykkt hefðu þm. Alþfl. samþykkt að greiða atkv. með framlengingu skattsins í þeirri mynd um eitt ár til viðbótar. Þar sem sú till. var hins vegar felld hafa þm. Alþfl. samþykkt á þingflokksfundi að styðja ekki framlengingu skattsins nú, en munu í öllum tilvikum greiða atkv. gegn frekari framlengingu hans verði eftir því leitað á næsta þingi.