21.04.1982
Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4065 í B-deild Alþingistíðinda. (3617)

58. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Frsm. 2. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Í sambandi við síðustu orð hæstv. viðskrh. er ekki verra að fram komi að í umr. í gærkvöld kom það raunar fram hjá helsta forustumanni stjórnarflokkanna, hv. 11. þm. Reykv., að hæstv. ríkisstj. ætlaði raunar að sitja lengur en næmi kjörtímabilinu, því að hann ætlaði ekki að láta kjósa, sá hv. þm., fyrr en um það bil sex mánuðum eftir að núverandi kjörtímabil rennur út. Það er því áreiðanlegt að mikill vilji er fyrir því í hæstv. ríkisstj. að reyna að ná eins miklu út úr þessu kjörtímabili og hún mögulega getur.

Það var í sambandi við frásögn hæstv. viðskrh. af tilteknu máli frá viðreisnarárunum sem mig langaði til að koma með eilitla leiðréttingu.

Hér var um að ræða breytingu á verðlagslöggjöfinni, sem flutt var af þáv. viðskrh. og þm. Alþfl., Gylfa Þ. Gíslasyni. Svo vildi til, að ég sem ritstjóri Alþýðublaðsins átti sæti í þingflokki Alþfl. þegar afgreiðsla þessa máls fór fram. Í þingflokki Alþfl. kom þá þegar fram, þegar málið var undirbúið og nokkru áður en frv. þessa efnis var lagt fram, að tveir tilteknir þm. Alþfl., annar þáv. hæstv. ráðh. Eggert G. Þorsteinsson og hinn þáv. og enn verandi alþm. Benedikt Gröndal, voru andvígir flutningi málsins og lýstu yfir að þeir mundu greiða atkv. gegn frv. ef það kæmi fram á Alþingi. Þessi samþykkt þingflokks Alþfl. var kynnt hinum stjórnarflokknum sem var Sjálfstfl. Þá lá jafnframt fyrir yfirlýsing tiltekinna þm. Framsfl. um að þeir mundu fylgja frv. af því tagi, ef það kæmi fram á þingi, enda höfðu þeir ítrekað í umr. lýst yfir að það væri bæði vilji þeirra og skoðun að gera ætti breytingar í þá átt sem frv. gekk í. Það gerðist hins vegar, þegar frv. hafði verið lagt fram, m.a. í trausti þess, að það hefði þingfylgi vegna yfirlýsinga tiltekinna þm. Framsfl„ og þegar ljóst var að tveir þm. Alþfl. fylgdu ekki málinu, að þá ákvað Framsfl. að breyta fyrri afstöðu sinni og greiddi atkv. gegn frv. og þar með féll frv. Frv. þetta var ávallt lagt fram vitandi um hvernig málin stóðu í stjórnarliðinu, vitandi um hvernig afstaða þm. Framsfl. þá var til málsins, enda fyrir því margar yfirlýsingar og orðræður þm. Framsfl. um þetta tiltekna mál. En það var auðvitað ekki á valdi þeirrar ríkisstjórnar og þá síst af öllu Alþfl. að vita fyrir fram að Framsóknarþm., sem áður höfðu lýst skoðunum sínum í málinu, breyttu afstöðu sinni til frv. þegar á hólminn var komið.