21.04.1982
Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4067 í B-deild Alþingistíðinda. (3623)

107. mál, almannatryggingar

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til 2. umr. kom það fram í ræðu hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni að við höfðum rætt saman um ákveðna brtt. við þetta frv. Hæstv. félmrh. lét þá þau orð falla, að hann biði spenntur eftir því töfraorði sem við mundum færa fram nú við 3. umr. um þetta mál til lausnar rekstrarvanda sjúkrahúsanna. Ef hæstv. ráðh. hefur haft þá trú, að við 3. umr: mundu falla einhver töfraorð, sem væru allsherjarlausn á rekstrarvanda sjúkrahúsanna, verður honum sennilega ekki að trú sinni, enda kom það ekki fram í ræðu hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni að brtt. okkar fæli í sér neina allsherjarlausn.

Hins vegar gæti sú till., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. þm. Pétri Sigurðssyni, Matthíasi Bjarnasyni og Magnúsi H. Magnússyni, flýtt fyrir því, að tekið verði upp hagkvæmara og samræmdara greiðslufyrirkomulag en við nú höfum, og einnig ætti þessi brtt. að tryggja að hægt verði farið í sakirnar að breyta um greiðsluform fyrr en reynsla hefur fengist af breyttu fyrirkomulagi. Eins má benda á að það hlýtur að vera brýnt að koma á samræmdu bókhaldi eða reglum um samræmd reikningsskil hjá öllum sjúkrastofnunum, þannig að á raunhæfan hátt sé hægt að bera saman rekstur sjúkrahúsanna og einstaka þjónustuþætti í rekstrinum og draga ályktanir af þeim, svo sem að því er hagkvæmni varðar. Um það var einnig mikið rætt við 2. umr. þessa máls, að vísitölugrundvöllurinn væri orðinn úreltur, vægi einstakra rekstrarliða væri ekki rétt metið og kannske ekki síst að vísitölugrundvöllurinn væri allt of einfaldur og þyrfti að taka til fleiri rekstrarþátta sjúkrastofnana. Eins hefur verið gagnrýnt, að það skuli einungis notaður einn vísitölugrundvöllur fyrir allar sjúkrastofnanir, og bent á nauðsyn þess að daggjaldanefnd setti upp fleiri reiknilíkön. Þessum þáttum voru gerð góð skil í ítarlegri ræðu hv. þm. Péturs Sigurðssonar við 2: umr. þessa máls, og sé ég ekki ástæðu til að bæta við það sem fram kom í máli hans þá, en í því ákvæði til bráðabirgða, sem nú er lagt til að samþykkt verði, er m.a. lagt til að upp verði teknar reglur um samræmt bókhald fyrir öll sjúkrahús og að fjölgað verði reiknilíkönum til samræmis við starfsemi stofnána.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að rökstyðja frekar þá brtt. sem flutt er á þskj. 654, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ákvæði til bráðabirgða.

1. Á fjárlögum fyrir árið 1983 skal greiðslufyrirkomulag samkv. 1. gr. .aðeins gilda fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, auk ríkisspítalanna, meðan verið er að kanna reynsluna af breyttu greiðsluformi.

2. Þegar skal lagfæra ágalla á gildandi daggjaldakerfi, m.a. með því að fjölga reiknilíkönum til samræmis við starfsemi stofnana. Einnig skal setja reglur um samræmt bókhald fyrir öll sjúkrahús og aðrar stofnanir sem undir daggjaldakerfið falla eða eru á fjárlögum.

3. Heilbrrh. skal láta fara fram heildarendurskoðun á gildandi greiðslufyrirkomulagi með það að markmiði að kanna hagkvæmustu framtíðarskipulagningu á greiðsluformi, og skal leggja tillögur þar að lútandi fyrir næsta Alþingi.

Væntum við flm. þessarar brtt. að þetta ákvæði nái fram að ganga nú við afgreiðslu þessa máls frá hv. deild þannig að vilji Alþingis komi ótvírætt fram í því efni, að heildarendurskoðun fari fram á gildandi greiðslufyrirkomulagi, lagfærðir verði ágallar á gildandi daggjaldakerfi og hægt sé að gera raunhæfari samanburð á rekstri sjúkrastofnana með reglum um samræmd reikningsskil.